149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmaðurinn nefnir hér dæmi um spurningar sem ekki hafi verið svarað. Þá hittist akkúrat svo á að spurningunni sem hv. þingmaður nefnir var einmitt svarað á fundum nefndarinnar áður en við afgreiddum málið til 2. umr. og er gott dæmi um hvers konar furðuverk sá spurningalisti var sem barst frá fulltrúum Miðflokksins inn á nefndarfundinn. Það stóð ekkert upp á okkur sem afgreiddum málið til 3. umr. úr velferðarnefnd. Það stóð ekkert upp á okkur að kalla til fleiri gesti. Það stóð upp á fulltrúa Miðflokksins sem sat fundinn að benda á eina einustu spurningu á því blaði sem kom inn á fundinn, eina einustu spurningu, þar sem um væri að ræða nýjar upplýsingar sem borist hefðu við 2. umr. eftir að við vorum sammála um að afgreiða málið úr nefndinni.

Þingmaðurinn hefur ekki enn nefnt slík dæmi vegna þess að þau eru ekki til staðar. Þetta er ekkert annað en ómálefnaleg umræða og í rauninni árás á þá góðu vinnu sem hv. þm. Halldóra Mogensen hefur unnið sem formaður velferðarnefndar. Öllum steinum hefur verið velt í þessu máli. Og 16 spurninga listi frá þingmönnum Miðflokksins til velferðarnefndar milli 2. og 3. umr. þar sem allar spurningarnar voru eitthvað sem spurt og svarað hafði verið áður en við samþykktum að afgreiða málið út, er málinu ekki til framdráttar.