149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðu hennar. Í annað sinn í þessari umræðu er verið að vísa í þetta opna bréf frá ágætum fæðingarlækni Landspítalans og í Svíþjóð og hvaðeina, Sigurlaugu Benediktsdóttur. Það gengur meira að segja það langt að hér er sett fram huglægt mat. Meira að segja í því tilviki þar sem konan býr við ofbeldi og barsmíðar og annað slíkt þá kemur jafnvel fram að sennilega muni barnið einnig þurfa að þola barsmíðar af hans hendi og annað slíkt. Er þetta boðlegt?

Mig langar aðeins að ræða það þegar verið er að taka fram þessi skelfilegu jaðartilvik, virkilega erfiðu jaðartilvik sem hv. þingmaður vísar til, hvort 10. gr. núgildandi laga nr. 25/1975, nái ekki yfir það, þó svo að það sé læknisfræðilegt mat, þó svo að að því komi sérfræðingar á sviði heilbrigðismála þegar þeir aðstoða konur sem þurfa undir þessum kringumstæðum að leita sér þessara úrræða. Þannig að mér þætti afskaplega vænt um ef hv. þingmaður, sem er lögfróð, vildi leiða mig í sannleikann um þessa grein ef ég veð algjörlega í villu og svíma.

Svo í sambandi við gífuryrðin, vill hv. þingmaður segja mér hvað á að kalla það þegar lífsréttur 22 vikna gamals ófullburða barns er ekki virtur frekar en þessi nýja löggjöf gerir ráð fyrir?

Hvert er hugtakið?