149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni kærlega fyrir andsvarið. Ég vil byrja á því að svara varðandi rökin, 16 vikur, 18 vikur, 20 vikur, 22 vikur, hvort þau rök gildi ekki alveg eins um þau eða engar hömlur. Jú, þau rök gilda. Þetta eru rökin. Tölurnar sýna okkur svart á hvítu að í ríkjum eins og Kanada þar sem eru engar hömlur hefur engin breyting orðið á tíðni þungunarrofs og tímamörkin þar sem konur fara í þungunarrof hækka ekki. Það eru tölulegar upplýsingar sem sýna það. En einhverra hluta vegna hafa þeir sem hæst tala ekkert horft á þá staðreynd. Konur eru skynugar skepnur. Þær eru það og við verðum að treysta því að ekki verði grundvallarbreyting þar á, af því að við erum að tala um líkama kvenna. Þetta hefur verið svona árum saman og þetta er svona enn þá, jafnvel löngu eftir að því var breytt í Kanada. Það hefur ekki breyst og ég átta mig ekki á því hvers vegna þingmaðurinn heldur að það verði einhver grundvallarbreyting á afstöðu kvenna til þungunar sinnar.

Hvað varðar að konur hafi ekki fengið nei þá hefur líka verið sagt við okkur að þær hafi farið til Bretlands af því að ekki hafi verið hægt að fara í þetta hér. Ég þekki persónulega enga slíka konu en þetta er umræða sem farið hefur fram. Ég verð að treysta þeim sem hér ræða að fara ekki með fleipur.