149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Auðvitað segir það sig sjálft að það er ákvörðun viðkomandi barns í þessu tilfelli og ég er ekkert á móti því. En það sem ég skil ekki er að ekki skuli sett inn í lögin að foreldrarnir séu upplýstir um þetta. Ef þú talar um sifjaspell hlýtur móðirin að vera þarna einhvers staðar. Er ekki sjálfsagt að hún fái að styðja viðkomandi barn? Ég bara spyr mig. Hvers vegna í ósköpunum er það eitthvað undarlegt?

Það sem mér finnst undarlegt er að hægt skuli vera að setja hlutina þannig fram að viðkomandi barn þurfi ekki að upplýsa foreldra sína. Það finnst mér undarlegt. Mér finnst ekkert undarlegt við að það væri inni að foreldrum beri að vita þetta og ég tel þá eiga fullan rétt á því. En síðan hlýtur það að vera endanlega ákvörðun viðkomandi og hvort lífi barns sé stefnt í hættu hlýtur að hafa áhrif á niðurstöðuna.