149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að spyrja þingmanninn út í starfsreglur fyrir fastanefndir Alþingis. 18. gr. þeirra reglna fjallar um það hvernig standa skuli að afgreiðslu máls úr þingnefnd. Í 3. mgr. þeirrar greinar er talað um hvernig eigi að taka á því að ágreiningur sé um það hvort athugun máls skuli hætt og síðan er seinna í greininni talað um hvað skuli gert ef nefnd er ekki einhuga um nefndarálit.

Nú háttar svo til að við þingmaðurinn vorum báðir viðstaddir fund velferðarnefndar 29. apríl síðastliðinn þar sem frumvarp til laga um þungunarrof var afgreitt til 2. umr. Ég man ekki betur en að við þingmaðurinn, eins og allir aðrir í nefndinni, höfum stutt þá afgreiðslu. Það þykir mér nú endurspeglast líka í því að þingmaðurinn stendur að minnihlutaáliti við þá afgreiðslu, þannig að hann hefur verið bæði viðstaddur og vakandi á fundinum. En einhvern veginn hefur hann misst af því að við vorum sammála um að á þeim tíma hafi verið búið að taka afstöðu til allra erinda og umsagna og sjónarmiða aðila sem komu á fundinn. Það er það sem felst í því að nefnd sé einhuga um að afgreiða mál frá sér til umræðu.

Þess vegna vil ég einfaldlega spyrja, vegna þess að hér verður þingmanninum tíðrætt um að það sé flýtir og eitthvað sé órætt, vegna þess að svarið fékk ég ekki á nefndarfundi hérna á milli 2. og 3. umr.: Hvað er það sem kom fram í 2. umr. sem ekki var þegar komið fram? Hvað er það sem kallar á að velferðarnefnd kalli til einhverja fleiri gesti með nýjar upplýsingar?