149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil, þar sem hún hefur talað um jaðartilfelli, spyrja: Ef við horfum á að undanfarin ár hafa að meðaltali verið gerðar 1.000 á ári fóstureyðingar frá 2011. Að meðaltali eru í kringum 30–40 af læknisfræðilegum ástæðum. Þar af leiðandi eru það mjög nálægt 1.000 sem eru af einhverjum öðrum ástæðum. Þar sem hv. þingmaður virðist hafa þetta allt á hreinu væri gaman að vita hvort hún hafi það á hreinu í hversu mörgum tilfellum af þessum nær 1.000 séu jaðartilfelli. Hversu margar fóstureyðingar af þessum 1.000 varða börn, varða fíkla, varða þessi jaðartilvik?

Og svo langar mig að spyrja líka, af því að hún er mjög ósátt við að menn hafi eitthvað með það að gera að ræða fóstureyðingu. Hjón sem eru gift, konan ákveður að fara í fóstureyðingu, hún þarf ekkert að tala við manninn sinn. Hann á engan rétt, bara núll. Hann á ekki einu sinni rétt á að vita hvort konan sé ófrísk eða ekki, ef konunni þóknast svo. Þar af leiðandi er þarna ekki um neitt jafnrétti að ræða, bara núll. Finnst henni það bara alveg sjálfsagt og eðlilegt?