149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Réttur fósturs til lífs hefur sannarlega verið ræddur í dag einnig. Það hefði hv. þingmaður heyrt ef hann hefði hlustað á umræðuna í heild sinni. Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er sú að hv. þingmaður heldur því fram að málið sé bara alls ekki nógu vel rætt, að þær spurningar og þær staðhæfingar sem hann heldur fram hafi alls ekki verið ræddar í umræðu um þetta mál.

Ég velti fyrir mér, fyrst hv. þingmanni finnst þetta ekki hafa neitt með réttindi kvenna að gera heldur frekar réttindi fósturs og finnst að það hafi ekki komið á nokkurn hátt fram í þessari umræðu, hvers vegna hann hafi ekki lagt sig fram við það, bara á einhverjum tímapunkti frá því 12. desember í fyrra, að taka þátt í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um málið fram að þessu fyrst honum finnst skautað yfir allar þessar stóru spurningar.

Ég hef engan hv. þingmann hingað til heyrt tala um að þungunarrof hafi ekkert (Forseti hringir.) með kvenréttindi eða sjálfsákvörðunarrétt kvenna að gera. Engan. (Forseti hringir.) Það er nýmæli, vissulega, hjá hv. þingmanni.