149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var bara að benda á tvískinnunginn í þessu. (HHG: Ég veit það.) Mér tókst það ágætlega. (HHG: Nei.) — Jú. Málið er að bæði staðgöngumæðrun og kynlífsviðskipti snúa bara að viðkomandi sjálfum. Þegar við erum að ræða fóstureyðingar eða þungunarrof er komið annað líf á einhverjum tímapunkti sem á réttindi. Það er munurinn og hann er ansi stór.

Ef við gengjum út frá því t.d. að líf kviknaði ekki fyrr en eftir 22. viku meðgöngu myndi ég segja að það væri fullkomlega réttur konunnar að taka ákvörðun um að eyða fóstrinu eða rjúfa þungun. Þá væri ég algjörlega samkvæmur sjálfum mér, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. En við þurfum fyrst að svara þessum erfiðu spurningum: Hvenær kviknar líf? Hvaða réttindi á fóstur? Ætlum við að taka hann af fóstrinu með frumvarpi af þessu tagi?