149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var reyndar að benda hv. þingmanni á að hann gæti ekki bent á meintan tvískinnung þar sem hann er ekki til staðar, en nóg um það. Mig langar að fara aðeins meira út í þá spurningu, sem þó er búið að margræða, hvenær líf kvikni. Þá verður samt að spyrja hvað í ósköpunum hv. þingmaður á við með lífi vegna þess að veran er lifandi frá upphafi. Fóstrið er samansafn af lífverum áður en það er orðið að fóstri. Sáðfruman er lifandi, eggið er lifandi. Þetta eru allt lífverur.

Hvenær kviknaði lífið? Fyrir einhverjum milljörðum ára. Það er svarið, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)— Nei, það er ekki útúrsnúningur. Vandinn við spurningu hv. þingmanns er að ef hann spyr einfaldlega hvenær lífið kviknaði er svarið: Einhvern tímann í fortíðinni. Það er svarið. Ef hv. þingmaður myndi spyrja hvenær sjálfsmeðvitund kviknaði, eða eitthvað því um líkt, væri það kannski áhugaverðari spurning, eða hvenær fóstrið er farið að upplifa einhvers konar tilfinningar. Reyndar þyrftum við þá að velta fyrir okkur hvað tilfinningar séu. Líffræðin er bara ekki svona klippt og skorin. Það er þess vegna sem þarf að finna önnur viðmið og viðmiðið sem er notað eftir mjög mikla umræðu er 22. vika.