149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja, eins og ég nefndi reyndar áðan í andsvari og í ræðu minni við 1. umr., að ég verð að játa á mig ákveðinn og jafnvel þokkalega mikinn skort á innsæi sem ég tel þurfa til að meta þetta mál fyllilega. Það er nefnilega þannig að ég er karlmaður og get ekki orðið þungaður, hef aldrei getað það og hef í raun aldrei getað sett mig í þau spor. Ég tel að þess þurfi til að fá almennilega innsýn í þetta mál.

Ég nefni þetta fyrir fram vegna þess að ef ég hefði fengið að ráða hefðu karlmenn ekki tekið þátt í þessari umræðu. Mér hefði þótt mjög áhugavert að sjá hvernig umræðan hefði farið, sér í lagi hvernig umræðan hefði farið ef einungis konur hefðu tekið þátt í henni með þá fullu innsýn inn í þessar aðstæður sem ég tel þurfa, þ.e. þær aðstæður að vera þunguð kona. Það finnst mér mikilvægt að nefna hérna sem smáfyrirvara á því sem mig langar þó að segja. Mér finnst ég vera tilneyddur til þess í ljósi umræðunnar sem átt hefur sér stað, þó að ég geti ekki tekið með í reikninginn allt það sem þarf til þess að skilja allt sem einstaklingar geta skilið sem geta sett sig í þær aðstæður eða hafa verið í þessum aðstæðum.

Hins vegar hef ég skoðun á því hvernig ákvarðanir eru teknar og hverjir taka ákvarðanirnar og vill svo til að þetta mál fjallar, alla vega í umræðunni, í veigamiklum atriðum um það. Ég þarf svo sem ekkert að geta sett mig í spor neins annars til að geta metið það hver eigi að taka ákvörðun. Það prinsipp er tiltölulega einfalt. Við eigum að taka ákvörðun um okkar eigin málefni, öll. Sem einstaklingar eigum við að taka ákvarðanir um málefni okkar sem einstaklinga, sem bæjarfélög eigum við að taka lýðræðislegar ákvarðanir sem bæjarfélög og sem þjóðríki eigum við að taka lýðræðislegar ákvarðanir með kosningum, og að mínu mati helst með beinu lýðræði. En meira um það síðar, ekki í þessu máli.

Þegar við veltum upp þeim spurningum sem hér hafa verið ræddar, þ.e. hver eigi að ákveða hvort kona fari í þungunarrof, þá segir það sig sjálft að sá einstaklingur á að ákveða það sem verður fyrir ákvörðuninni. Sá einstaklingur er þungaða konan sjálf. Það þarf ekkert innsæi til að átta sig á því. Hins vegar þykir mér áberandi, alla vega í umræðunni, hvað konum hefur þótt það augljóst og að karlar í umræðunni hafa átt auðveldara með að líta fram hjá því. En það er eins og það er.

Hér áðan spurði hv. 5. þm. Reykv. s., Brynjar Níelsson, hvenær líf kviknaði og kallaði hann eftir umræðu um það atriði. Ég vil bara segja áður en ég held áfram, að ég ber fulla virðingu fyrir því að fólk sé ósammála um þetta mál. Ég ber fulla virðingu fyrir því að fólki finnist þetta viðkvæmt og persónulegt, eldfimt. Það er það eðlilega. Mál sem varða börn og afkvæmi almennt eru það. Mjög skiljanlega. Þetta er eitt af djúpstæðustu hlutum okkar raunveruleika, þ.e. að við fjölgum okkur, við eignumst börn, eignumst afkvæmi. Það er mjög persónulegt, það er eðlilega viðkvæmt. En líffræðin er ekki alltaf svo kurteis við okkur að gefa okkur einhver einföld svör við spurningum á borð við hvenær líf kviknar og ég get ekki annað en dregið þá ályktun að hv. þingmenn sem spyrja þeirrar spurningar séu að meina eitthvað annað. Að þeir séu að tala um hvenær lífvera byrjar að finna tilfinningar, hvenær lífvera byrjar að vera meðvituð um sjálfa sig eða eitthvað því um líkt. Það eru alveg heimspekilega áhugaverðar spurningar en það hefur reynst ómögulegt að nýta svörin við þeim spurningum eða spurningarnar sjálfar til að meta það atriði. Ástæðan er sú að það er ekki einhver einn tímapunktur þar sem líf verður til, það er ekki einhver einn tímapunktur þar sem veran verður sjálfsmeðvituð. Það er ekki svona skýrt. Afsakið, en náttúran ákvað bara að hafa þetta tiltekna efni rosalega óskýrt. Þannig að við verðum að nota eitthvað annað sem viðmið í því efni. Viðmiðið sem fengið hefur verið fram eftir ofboðslega mikla umræðu, svo ofboðslega djúpar, efnislegar, heimspekilegar, vangaveltur, menntun og fræðistörf, er það tímabil sem er tilgreint í þessu frumvarpi, við lok 22. viku, það er sem sé talið rökréttasta tímabilið.

Ég skil alveg að fólk hafi einhverjar efasemdir um það. En einhvern veginn þarf að þetta vera og við hljótum öll að vera sammála um að við myndum ekki heimila þungunarrof á níunda mánuði vegna þess að þá erum við að tala um ungabarn, vænti ég. Við erum líka öll sammála um það að við myndum ávallt heimila þungunarrof, eða ég geri ráð fyrir því, kannski barnslega, á fyrstu viku þótt það sé reyndar eflaust einhver sem ég hef ekki tekið eftir eða hefur ekki þorað að segja það upphátt að hann sé alfarið á móti þungunarrofi.

Þetta er endalaust stórt grátt svæði eins og margt í lífinu. Einhvern veginn þarf þetta að vera og við þurfum að taka ákvarðanir okkar út frá þeim bestu gögnum sem við höfum eftir þær miklu vangaveltur sem við getum haft í sambandi við heimspekilegar spurningar í kringum það hvenær einstaklingur er orðinn einstaklingur, hvenær hann er enn þá hluti af konunni sem er ólétt. Þetta er niðurstaðan og mitt kalda mat á því er að hún sé rökrétt.

Þá langar mig aðeins að nefna tvennt annað. Ekki hefur mikið verið snert á því hér. Mig langar að því snerta á því af þeirri virðingu sem mér er unnt að sýna því. Það er trúarlegi vinkillinn. Alla vega einu sinni eða tvisvar var heilagleiki lífsins nefndur. Ég myndi hafa sömu athugasemdir við slíkt; að þetta sé ekkert svona einfalt. Það er gott og blessað að aðhyllast einhver trúarbrögð. En það er nú samt líka þannig að abrahamísk trúarbrögð, eins og kristni, veita mjög einföld svör við mjög flóknum spurningum. Sömuleiðis myndi ég bara að mótmæla því harðlega að byggja löggjöf sem varðar sjálfsákvörðunarrétt fólks á trúarlegum forsendum yfir höfuð, alveg sama hvaða trúarbrögð það eru, það eru skiptir engu máli hvort það er kristni eða guðleysi eða annað eða hvað sem er. Trúarleg afstaða á ekki að koma því við að mínu mati. Það er ekki okkar hlutverk hérna að svara slíkum spurningum. Slíkum spurningum geta hins vegar einstaklingarnir sjálfir svarað.

Mig langar að svara þeim sem vilja byggja þessa ákvörðun á kristnum grunni: Gott og vel. Treystum kristnum konum til að taka þessa ákvörðun á sínum eigin trúarlegum forsendum. Það er rétta svarið við þeim áhyggjum.

Þá kem ég að því sem þetta snýst allt um; vangaveltur okkar um það, hversu réttmætar og tilfinningaþrungnar sem þær kunna að vera, um alls konar aðstæður sem komið geta upp, upp að 22. viku. Ákvarðanir sem slíkar eru aldrei í betri höndum en þess einstaklings sem verður hvað mest fyrir ákvörðuninni, sem er konan sjálf, hin ólétta kona. Það er það sem þetta snýst um. Okkur þarf ekki að líka vel við ákvörðunina, við getum hatað hana. Það er allt í lagi. En það þýðir ekki að við eigum að taka hana. Um það snýst málið, þ.e. hver tekur ákvörðunina, ekki bara hver hún er. Þess vegna snýst málið um sjálfsákvörðunarrétt kvenna og kvenfrelsi. Vegna þess að hinn möguleikinn er samkvæmt gildandi lögum að einhver annar en konan taki ákvörðunina. Sú ákvörðun getur verið jákvæð, þ.e. að þungunarrof sé framkvæmt á 22. viku. Þá er það ekki konan sem ákveður það, hæfasti einstaklingurinn, sá sem ákvörðunin varðar mest.

Þá vil ég líka reyna að hugga andstæðinga þessa frumvarps með því að það hefur ekki verið reynslan annars staðar þar sem sambærilegar breytingar hafa verið gerðar að þungunarrofum fjölgi. Það er mjög góð ástæða fyrir því. Það er vegna þess að ákvörðun um þungunarrof er ekki eitthvað sem fólk tekur bara að gamni sínu. Það er þung ákvörðun, sér í lagi þegar svo langt er liðið á þungunina.

Mér finnst líka alveg þess virði að nefna að þegar hv. þingmenn hafa komið hingað upp og talað um þessar miklu áhyggjur af því að einhver kona taki ranga ákvörðun á 21. eða 22. viku, þá finnst mér þá þingmenn skorta þann skilning á því að það er enginn betur til þess fallinn að taka þá ákvörðun en sá einstaklingur sem í hlut á á þeim tímapunkti. Og eina leiðin til að vera ósammála því er með því að meta sjálfsákvörðunarrétt þess einstaklings, nefnilega konunnar, minna en persónulegar skoðanir þess hv. þingmanns sem talar hverju sinni. Þess vegna verða hv. þingmenn hér fyrir þeim átölum frá öðrum að þeir séu einhvern veginn á móti sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Þeir koma síðan hingað og svara þannig að þeir séu ekki á móti sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Gott og vel.

Þegar maður talar svona þá hljómar það þannig. Það er eiginlega lógísk afleiðing af svona tali vegna þess að þetta snýst ekki um hvað mér eða öðrum einstaka hv. þingmönnum finnst um tiltekið þungunarrof undir einhverjum tilteknum aðstæðum, væntanlega, langoftast mjög erfiðum aðstæðum, heldur það hver eigi að taka ákvörðun, hvernig ákvörðunin sé tekin. Það er það sem málið snýst um.

Þetta frumvarp svarar þeim spurningum að mínu mati, rétt. Þar á meðal 4. gr.

Ég hef svo sem ekki mikið meira að segja um þetta mál. Mig langar bara að ítreka að ég ber fulla virðingu fyrir því að fólk sé efins. Ég ber fulla virðingu fyrir því að þetta sé tilfinningamál. Við þurfum þess vegna að halda í það haldreipi sem eru prinsippin sem við byggjum ákvarðanir okkar á, hver það er sem á að taka hverja ákvörðun. Við sem þjóðríki sem þjóð, við sem bæjarfélag sem bæjarfélag, við sem einstaklingar sem einstaklingar. Um það snýst málið.