149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

búvörulög.

646. mál
[21:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni málsins fyrir hennar yfirferð yfir nefndarálitið. Mig langar aðeins að bæta í varðandi þetta mál. Það er mjög mikilvægt að það sé búið að endurskoða samninga um starfsskilyrði í sauðfjárrækt og hér liggi fyrir samningur sem mikil sátt er um í greininni sjálfri. Það hefur verið unnið að því að ná endurnýjuðum samningi frá því í fyrra og það náðist í janúar í vetur, milli ríkisins og Landssamtaka sauðfjárbænda. Síðan hefur málið verið í kynningu og svo atkvæðagreiðslu hjá greininni sjálfri.

Vissulega eru aldrei allir sáttir, eins og gengur, en samt er það mikill meiri hluti sem samþykkti þetta samkomulag, yfir 68%, og telst það nokkuð gott. Þegar svo mikil samstaða næst um málið innan greinarinnar sjálfrar er kannski ekki hægt að ætlast til að Alþingi fari að hreyfa mikið við þeim samningi. Þær breytingar sem eru hér eru því í sjálfu sér ekki miklar. En samt hefur verið tekið tillit til ákveðinna þátta eins og að flýta dagsetningu varðandi aðilaskipti um greiðslumark. Það átti að vera óheimilt frá og með 1. september 2019 en er flýtt til 1. júní 2019. Ég tel það vera til þess að mæta ákveðnum sjónarmiðum innan greinarinnar sem skipta máli.

Annars kemur fram í þessum samningi bæði sú breyting að það verði búin til þessi innanlandsvog til að meta og skilgreina þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti og að sauðfjárbændum bjóðist að gera aðlögunarsamninga sem gera þeim kleift að byggja upp nýjar búgreinar og búskaparhætti á sínum jörðum. Það skiptir greinilega miklu máli.

Þetta eru erfiðir tímar fyrir greinina. Það eru margar áskoranir varðandi væntanlegan aukinn innflutning á kjöti. Greinin hefur átt í erfiðleikum með að ná nægilegum hagnaði út úr framleiðslu sinni og líka möguleikum á nýliðun og kynslóðaskiptum á bújörðum. Allt eru þetta hlutir sem greinin hefur verið að glíma við, að reyna að tryggja að það verði kynslóðaskipti og menn horfi til ýmissa þátta sem gætu styrkt greinina, til geta haldið áfram að búa á jörðunum og farið í einhverjar hliðarbúgreinar meðfram búum sínum.

Ég held að þetta frumvarp sem við erum hér að fjalla um og nefndarálitið sem kom út úr vinnu nefndarinnar eftir vinnu hennar fyrir 2. umr. sé stórt skref í rétta átt. Við þurfum bara að halda áfram að vinna með þessari grein sem skiptir okkur miklu máli að haldi áfram að vaxa og þróast og hafi tækifæri eins og aðrar atvinnugreinar í landinu og að upp rísi ungt fólk sem sér hag sinn í því að búa til sveita og stunda landbúnað, hvort sem er í sauðfjárrækt eða í öðrum búgreinum.