149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur snýr að orðum sem hún lét falla í kvöldfréttum Stöðvar 2 síðasta laugardag. Hæstv. ráðherra sagði þar, með leyfi forseta:

„Á meðan þingið er stjórnarskrárgjafinn í þessu landi þá er mikilvægt að þingið nái sem bestri samstöðu um stjórnarskrá.“

Í þessum orðum virðist felast sú afstaða að valdið til að setja íslensku þjóðinni stjórnarskrá, grundvallarlög þjóðarinnar, sé hjá Alþingi, að okkur sem hér sitjum sé falið valdið til að ákveða leikreglurnar sem gilda í samfélaginu og einnig leikreglurnar sem gilda fyrir okkur sem setjum reglurnar.

Gott er í þessu ljósi að rifja upp að árið 2012 samþykktu um tveir þriðju hluta landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu að hér skyldi taka gildi ný stjórnarskrá byggð á tillögum stjórnlagaráðs. Nú, sjö árum síðar, hefur það ekki gerst en hæstv. ráðherra hefur leitt vinnu formanna stjórnmálaflokkanna sem vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Í hvers umboði telur hún sig starfa þegar hún leiðir þessa vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar? Starfar hún í umboði þjóðarinnar eða umboði þingsins eða í umboði formanna stjórnmálaflokkanna?

Í stuttu máli spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hver er stjórnarskrárgjafinn að mati hæstv. forsætisráðherra? Er það þingið eða er það þjóðin?