149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, sem mér finnst vera kannski svolítið fræðileg nálgun á spurningu mína. Þegar á heildina er litið var ég að falast eftir viðhorfi hæstv. forsætisráðherra gagnvart því hver í raun og sann sé stjórnarskrárgjafinn. Ég er alveg meðvituð um að þingið þarf að samþykkja stjórnarskrá. Ég er fullkomlega meðvituð um það.

Ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. ráðherra út í viðhorf hennar gagnvart því hver sé stjórnarskrárgjafinn tengist líka því hvernig sú vinna sem er í gangi núna er framkvæmd, með hvers konar viðhorfi, í hvaða anda og á hvaða grunni.

Ef viðhorfið er það að þingið „á þetta og má þetta“ en ekki þjóðin hef ég áhyggjur af gildi þess ferlis líka. Ég fékk það ekki skýrt fram í svari hæstv. forsætisráðherra hvort henni fyndist hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi, (Forseti hringir.) þrátt fyrir ferla og form og annað, vera þjóðin eða þingið.