149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

samningur Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið.

[15:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Í fyrsta lagi varðandi tillögu skimunarráðs er hún að mörgu leyti að evrópskri fyrirmynd, þ.e. hvernig stofnanastrúktúrinn er, ef svo má að orði komast, í kringum skimanir. Ég hef fundað með Krabbameinsfélaginu og séð það upplegg sem Krabbameinsfélagið er með, sem er að mörgu leyti ekki óskylt því plani sem skimunarráð leggur fram. En skimunarráð er líka með mjög merkilega áherslu sem er sú að skimanir skuli vera gjaldfrjálsar. Þar erum við sammála Krabbameinsfélaginu um að það beri að vera þannig, vegna þess að það hefur verið viðkvæðið hjá mörgum að þeir hafi ekki treyst sér til að mæta í krabbameinsskoðanir vegna þess hversu dýrt það er.

Ég vænti þess eftir þessa fyrirspurn hv. þingmanns að ég kanni það í ráðuneytinu hvernig samskiptin hafa verið alveg á undanförnum vikum við Krabbameinsfélag Íslands, en Krabbameinsfélagið er svo stór gerandi á þessu sviði að það er ótækt annað en að framkvæmdin sé innleidd í samráði við það.