149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

afgreiðsla frumvarps um þungunarrof.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans fyrirspurn. Ég ber fulla virðingu fyrir því að þetta er mál sem ristir djúpt og varðar grundvallarsannfæringu margra, ef ekki allra, þingmanna. Ræðum fyrst aðeins um það vinnulag sem hefur verið viðhaft í þessu máli. Vinna við endurskoðun laga um þungunarrof var sett af stað í tíð ekki síðasta heilbrigðisráðherra heldur þarsíðasta heilbrigðisráðherra, hæstv. ráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar. Það var unnin mjög vönduð skýrsla sem birt var og fékk opinbera umræðu þá strax, fyrir einhverjum árum, ég ætla að það hafi verið 2015 eða 2016. Frumvarpið kom fram á haustþingi og hefur verið til umræðu í hv. velferðarnefnd. Ég get ekki annað sagt en það sem ég hef heyrt um þá vinnu. Mér skilst að í það hafi verið lögð mikil vinna, margir fundir verið haldnir um málið, margir gestir fengnir og ekki verið óskað eftir því til að mynda að fulltrúar trúfélaga mættu á fund nefndarinnar. Ég heyri ekki annað en að formaður nefndarinnar hafi haldið um málið eins vel og unnt er.

Það breytir því ekki að þetta er mál sem ég hef fullan skilning á að skiptir fólki í tvær fylkingar og fyrir mér er þetta risastórt grundvallarmál. Þetta er grundvallarmál sem snýst um sjálfræði kvenna að mínu viti, réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama og eigin lífi, langþráð réttindamál, en um leið fylgir því frelsi sem boðað er í frumvarpinu mikil ábyrgð. Ég hef þá afstöðu að ég treysti fólki og konum til að taka ekki slíkar ákvarðanir af neinni léttúð. Ég treysti konum fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir þessum réttindum. Ég treysti því að þessi réttindi verði framfaraskref (Forseti hringir.) fyrir konur á Íslandi. Fyrir mér er þetta nefnilega líka mikið grundvallarmál og ég held að þær spurningar breytist ekki (Forseti hringir.) þó að við höldum fleiri fundi um málið því að ég tel að vel hafi verið að vinnunni staðið.