149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

sáttanefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

[15:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir að fá að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um það hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að ljúka hinu löngu tímabæra verkefni, Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Guðmundar- og Geirfinnsmálið hófst fyrir 45 árum og enn hafa íslensk stjórnvöld ekki lokið því með fullnægjandi hætti. Margir angar eru enn óleystir. Dómstólar hafa nú sýknað þá einstaklinga sem dæmdir voru fyrir manndráp á sínum tíma en sú kona sem sætti miklu ofbeldi og harðræði í skýrslutökum og gæsluvarðhaldi, Erla Bolladóttir, stendur eftir ein með sinn dóm fyrir meinsæri á bakinu. Við vitum núna að það átti sér stað undir gríðarlegri þvingun gagnvart nýbakaðri móður sem haldið var í fangaklefa löngum stundum fjarri ungu barni sínu. Já, það hefur ekkert verið gert í hennar máli, hún ein skal áfram vera dæmd kona og ekkert samtal fá við stjórnvöld, engin svör við fyrirspurnum, ekki neitt. Hún er virt að vettugi.

Í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar sl. haust var skipuð nefnd sem átti að vera í samskiptum við dómþola og afkomendur þeirra sem látnir eru, en ekkert hefur spurst til nefndarinnar um nokkurt skeið. Hún virðist bara vera gufuð upp án þess að ný hafi verið skipuð. Nú er lögmaðurinn Andri Árnason mættur sem málsvari forsætisráðherra í málinu. Sjö mánuðir eru liðnir, erindum dómfelldu og aðstandenda þeirra er ekki svarað og hæstv. forsætisráðherra lætur ekki ná í sig vegna þessa máls.

Herra forseti. Í 45 ár hefur þetta fólk verið beitt ofbeldi og harðræði af íslenskum stjórnvöldum. Forsætisráðherra steig fram sl. haust í kjölfar sýknudóms og baðst afsökunar en ósvarað er á hverju var verið að biðjast afsökunar. Engin tilraun hefur verið gerð til að kafa núna í fyrsta sinn af alvöru ofan í það sem gerðist við rannsókn málsins.

Spurningarnar sem ég vil fá svör við eru: Er sáttanefnd enn að störfum eða gafst hún upp á verkefninu? Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að viðurkenna hér í ræðustóli Alþingis að sakborningar hafi orðið fyrir pyndingum og ómannúðlegri meðferð af hálfu íslenskra stjórnvalda? Er viðurkenning á slíku ofbeldi mögulega hluti (Forseti hringir.) af væntanlegri sátt í málinu?