149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

sáttanefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, ég vil ítreka að ég hef líka hitt fulltrúa þessara hópa, þriggja a.m.k., jafnvel fleiri af þessum fimm hópum. Mér þykir það leitt og ég skil það mætavel — meðan verkefninu er ekki lokið er það auðvitað svo að ég hefði gjarnan viljað að þetta gengi allt saman hraðar fyrir sig. En þetta er flókið verkefni. Vegna þess líka að málið er einstakt.

Fyrst hv. þingmaður nefnir í sinni seinni fyrirspurn hvernig við getum tryggt að við lærum af þessu máli held ég að það sé einmitt það mikilvægasta, við verðum að læra af þessu máli. Svona mál má ekki endurtaka sig og það er mikilvægt að stjórnvöld, með hvaða hætti sem það er gert, efni til opinnar umræðu um þetta mál og hvaða lærdóma við getum dregið af því, einmitt til að tryggja að sá lærdómur sé ekki bundinn við þá sem muna eftir þessu máli heldur skili sér áfram. Það er svo margt í málinu (Forseti hringir.) sem ég tel — og vona svo sannarlega — að sé einstakt í íslenskri réttarsögu, en má ekki endurtaka sig.