149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu sem er auðvitað miklu víðtækari en svo að hún fjalli eingöngu um kjarasamninga fram undan heldur snýst hún um mörg grundvallarmál í samfélagi okkar, m.a. hvernig við getum með aðgerðum okkar bætt kjör alls almennings. Ég vil þá byrja á að ræða aðeins um lífskjarasamningana sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni. Þó að vissulega séu ekki allir sem hafa samið núna á almennum vinnumarkaði eru 90% af hinum almenna vinnumarkaði búin að semja, annars vegar í samningunum sem voru kynntir í Ráðherrabústaðnum á sínum tíma seint að kvöldi og síðan hafa iðnaðarmenn bæst í hópinn þannig að yfirgnæfandi meiri hluti hins almenna vinnumarkaðar hefur ákveðið að semja út frá þessum stóru línum, m.a. vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin boðaði.

Mig langar að reifa þær aðeins þó að þær hafi þegar verið reifaðar að því leytinu til að hv. þingmaður spyr: Er horft nægilega mikið til grundvallaratriða í okkar samfélagsgerð til að bæta kjör allra? Já, þarna er nefnilega um mörg grundvallaratriði að ræða. Það að lengja fæðingarorlof, svo ég byrji þar, er til að mynda grundvallarbreyting og kannski miklu meiri grundvallarbreyting en hv. þingmenn, sem eru ekki allir hættir að eignast börn en margir hverjir, velta ekki of mikið fyrir sér. Við erum með skýrslur sem sýna að það að brúa umönnunarbilið er ein af lykilaðgerðunum til að draga úr fátækt barna á Íslandi. Þetta er líka lykilaðgerð til að koma til móts við ungt fólk en þegar við skoðum gagnagrunninn okkar, tekjusagan.is, þar sem hægt er að skoða ráðstöfunartekjur og þróun þeirra sjáum við að ungt fólk hefur setið eftir í þróun ráðstöfunartekna. Það er fólkið sem er að eignast börnin, það er fólkið sem er einmitt að lenda í vanda við að brúa bilið. Þarna erum við að skapa vandamál ef við leysum ekki það vandamál. Þetta er grundvallaratriði og þetta er gríðarlega mikilvægt.

Stofnframlögin eru sömuleiðis ekki neitt sem núverandi ríkisstjórn fann upp. Við skulum vera heiðarleg með það að það var önnur ríkisstjórn sem hóf það kerfi í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins, en þar er verið að byggja upp á nýjan leik félagslegt húsnæðiskerfi sem ég held að skipti alveg gríðarlega miklu máli til að bæta kjör fólks almennt.

Hv. þingmaður nefndi skattkerfisbreytingar. Já, ég tel það vera grundvallarbreytingu að innleiða aftur þriggja þrepa kerfi eins og var hér á tímabilinu 2009–2013 þar sem við erum að horfa á lægra lágtekjuþrep en þá var inni og hv. þingmaður spurði sérstaklega hvort breytingarnar gengju upp allan skalann. Ég held að hann hafi orðað það þannig. Ja, þar kom fram okkar skýra loforð að skattalækkanir yrðu meiri hjá tekjulægri hópum en hinum tekjuhærri þannig að sú útfærsla mun miðast að því.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki birtast allar þessar aðgerðir í fjármálaáætlun og hana þarf að sjálfsögðu að endurskoða núna. Það er kannski önnur umræða og stærra mál af því að það er augljóst að ný hagspá kallar á að við endurmetum fjármálaáætlun en í þeirri fjármálaáætlun sem lögð var fyrir þingið var gert ráð fyrir u.þ.b. 62 milljörðum af þeim 80 milljörðum sem við gerðum ráð fyrir í þessar aðgerðir, þ.e. mikill meiri hluti þeirra hafði birst í fjármálaáætlun.

Hv. þingmaður spyr svo um aðra hópa. Kjarasamningar eru fram undan við ríki og sveitarfélög. Það má segja að auðvitað sé búið að slá ákveðinn tón með lífskjarasamningunum sem verður væntanlega tekinn til skoðunar í þeim samningum sem fram undan eru. En í því felast líka ákveðin tækifæri. Til að mynda er krafa sem hefur verið hvað hæst uppi á borðum, ekki síst hjá vaktavinnufólki hjá ríki og sveitarfélögum, endurskoðun vinnutímafyrirkomulags vegna þess að álagið er mjög mikið á marga, ekki síst þá sem eru í vaktavinnu. Opinberir starfsmenn hafa í auknum mæli kvartað yfir auknum kröfum og álagi í vinnu, vinnutíma og starfsaðstæðum almennt, en í lífskjarasamningnum sem er milli SA og verkalýðshreyfingarinnar er kveðið á um nýja nálgun á tilhögun vinnutímans og sömuleiðis skiptingu ábatans á milli launþega og atvinnurekenda.

Í þessari stöðu felast ákveðin tækifæri til að endurskoða ekki síst vinnutíma opinberra starfsmanna. Ég mun ekki taka sérstaklega fyrir námsmenn en vil geta þess að félagsmálaráðherra kynnti nýlega fyrstu (Forseti hringir.) skref í ákveðnum kjarabótum til örorkulífeyrisþega og að verulega verði dregið úr skerðingum til þeirra þannig að vitaskuld er mikilvægt að við gleymum engum hópi þegar við erum að ræða um kjör almennt í samfélaginu.