149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:01]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Menn geta svo sem nálgast viðfangsefnin og verkefnin með ýmsum hætti, með bjartsýni sem auðveldar lausn verkefnanna eða séð öll vandamál sem fram undan eru og reynt að glíma við þau og þá verður allt einhvern veginn miklu erfiðara. Menn geta horft fram á veginn af bjartsýni eða séð skuggana falla alls staðar á. Ég hygg að þegar við horfum á það sem gert hefur verið og gerst hefur núna með lífskjarasamningunum sé ástæða fyrir okkur öll að vera nokkuð bjartsýn þegar við lítum fram á veginn.

Ég tel að lífskjarasamningarnir svokölluðu marki ákveðin tímamót í kjarasamningum á Íslandi. Þar skiptir ekki síst máli svokallaður hagvaxtarauki þar sem komið er á beinni tengingu milli svigrúms atvinnulífsins til launabreytinga og hækkunar launa, þ.e. verið er að tryggja að launafólk á Íslandi í framtíðinni fái sinn skerf af vexti efnahagslífsins. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Í öllum málflutningi í aðdraganda kjarasamninga lögðu bæði Samtök atvinnulífsins og samtök launafólks áherslu á það að fyrst og fremst yrði horft til þess að tryggja hag og byggja upp lífskjör þeirra sem lakast standa. Ég hygg að það hafi tekist, verkefninu er ekki lokið, en það hafi tekist, og ríkisstjórnin hefur með myndarbrag tekið þá ákvörðun að koma þar á móti. Við erum að lengja fæðingarorlofið. Við erum að gera skattkerfisbreytingar sem eru fólgnar í því að létta undir með láglaunafólki með lægri prósentu á lægstu laun í tekjuskatti (Forseti hringir.) og við erum að byggja upp húsnæðiskerfið að nýju, herra forseti.