149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ef allur þingheimur yrði dreginn hér upp í pontu og látinn svara spurningunni: Vilt þú tryggja vinnandi fólki kjör sem leyfa því að lifa með reisn? væri svarið hjá okkur öllum án efa eindregið jákvætt. Loforð um mannsæmandi laun og aukna velmegun hljóma hér reglulega, en svo gerist næstum ekki neitt. Sá fimmtungur þjóðarinnar sem minnst hefur á milli handanna hefur ekkert grætt á hagvaxtaraukningu, kaupmáttaraukningu og öllum þeim fjölmörgu meðaltölum sem mæla hagkerfi en ekki hagsæld og hamingju.

Í stað þess að reyna að leysa þessi vandamál höfum við leyft áhrifum þeirra magnast upp. Við sjáum nú enn skýrari merki um vaxandi stéttaskiptingu á Íslandi. Þetta á ekki síst við innan heilbrigðiskerfisins en þar starfa að stórum hluta láglaunastéttir og álagið á þær eykst stöðugt. Á spítölum landsins starfa einnig flestar kvennastéttir landsins og það hefur sýnt sig undanfarin misseri að þrátt fyrir allt eru störf þeirra ekki metin að jöfnu við störf karla, jafnvel þegar hið opinbera er vinnuveitandinn. Það er pólitísk ákvörðun að viðhalda kynbundnum launamun og svo þykjumst við ekki skilja af hverju svona illa gengur að manna Landspítalann. Ástæður mönnunarvandans eru ósanngjarn vinnutími og ósanngjörn kjör.

Loforð ríkisstjórnarinnar um aukinn jöfnuð hafa ekki skilað sér til þeirra sem bjuggu við fátækt og skort fyrir loforðin. Staða þeirra er óbreytt að mestu nema vegna þeirra kjarabóta sem verkalýðshreyfingin hefur tryggt þeim með harðri kjarabaráttu sinni. Framtíðartækifæri þeirra lægst launuðu hverfa í heilsuspillandi láglaunastriti til að ná endum saman, en slíkt álag bitnar ekki síst á fjölskyldum og börnum. Staða þeirra í framtíðinni mun verða enn verri ef ekki er gripið inn í þessa þróun.

Þar skiptir stytting vinnuvikunnar höfuðmáli. Rannsóknir sýna að þannig getum við aukið hamingju, þannig haldast fjölskyldur saman, þannig höldum við í heilsuna og þannig höfum við meira að segja jákvæð áhrif á umhverfi okkar. Stefnum ekki að sívaxandi hagvexti og að hækka sem allra mest meðaltal launa. (Forseti hringir.) Stefnum að því að búa til fjölskylduvænt samfélag sem setur lífshamingju og vellíðan landsmanna í fyrsta sæti.