149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa góðu umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera með okkur hér. Það sem mig langar til að líta til í þessu sambandi er hinn svokallaði húsnæðisliður í vísitölunni. Það kemur í ljós að árið 2018 er verðbólga um 2,8% í landinu en væri án húsnæðisliðar 0,7%. Hversu miklir hagsmunir eru hér undir fyrir heimilin í landinu og fyrir fyrirtækin í landinu, fyrir þá sem skulda? Gríðarlegir hagsmunir. Nú hefur komið fram að þetta var eitt af því sem var lögð áhersla á í kjarasamningum og virtist vera að ríkisstjórnin vildi koma til móts við það að einhverju leyti. Því langar mann óneitanlega til að vita hvar þetta mál er statt, hvort það sé eitthvað á bak við það eða ekki neitt þegar talað er um að hugsanlega eigi að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og landslagið sé hugsanlega akkúrat þannig núna.

Þegar búið er að semja á vinnumarkaði af sennilega um 90% alls vinnandi fólks, og er það mjög vel, lítur maður óneitanlega til þessara þátta sem hafa kostað heimilin í landinu gríðarlega fjármuni. Ætli það séu ekki um 118 milljarðar kr. umfram það sem hefði verið ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inni í vísitölunni þegar tekin eru árin 2013–2018 og skoðað hvað skuldir heimila og fyrirtækja hækkuðu mikið. Þær hefðu hækkað sem sagt um 27 milljarða ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inni í vísitölunni. Mér finnst þetta vera gríðarlega mikið hagsmunamál og eftir þessu hefur verkalýðsforystan kallað árum saman. Mér finnst við í fyrsta skipti eygja möguleika á því að á þessu verði tekið og ég vona að svo verði.