149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að koma þessari umræðu af stað og hæstv. forsætisráðherra fyrir þátttökuna. Ég ætla einkum að beina sjónum mínum að þeim þáttum sem snúa að kjörum, þ.e. vinnutíma, því að eins og komið hefur fram í umræðunni eru ýmsir aðrir þættir sem eru til að mynda í lífskjarasamningunum, eins og lenging fæðingarorlofs, breyting á húsnæðislöggjöf o.s.frv. nokkuð sem er almennt og mun gagnast öllum.

En innan opinbera geirans eru stórar stéttir þar sem breyting á vinnutíma hefði gríðarlega mikil áhrif á kjör. Stór hluti þeirra sem vinna hjá hinu opinbera vinnur á svokölluðum átta tíma rúllandi vöktum, eins og það er kallað í heilbrigðiskerfinu, og ég trúi því að á einhverjum tímapunkti, vonandi í ekki allt of fjarlægri framtíð, verðum við komin þangað að skilgreina 32 tíma á rúllandi vöktun sem fulla vinnu. Vonandi verður þess ekki langt að bíða, hvort sem það verður í þessari kjarasamningalotu sem fyrstu skrefin verða stigin eða næstu. Auðvitað veltur það á báðum samningsaðilum.

Eins og komið hefur fram eru þarna undir stórar stéttir kvenna sem hafa í sögulegu samhengi verið á tiltölulega lágum launum miðað við það sem kalla mætti viðmiðunarstéttir. Þarna getum við gert miklu betur. Ég trúi því að við getum breytt vinnutímanum og létt á því álagi sem fylgir því að vera á átta tíma rúllandi vöktum (Forseti hringir.) og þar með bætt kjör þessara stétta umtalsvert.