149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

(Forseti (BN): Forseti vill árétta að það er mikilvægt að næsti ræðumaður sé nokkurn veginn tilbúinn þegar hann á að koma í ræðustól.)

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umhyggjuna sem forseti sýnir mér. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég verð var við þennan kærleika og ég er ákaflega þakklátur fyrir þitt leiðbeinandi hlutverk fyrir þinginu.

Ég var ekki jafn ánægður, virðulegur forseti, með það sem mér fannst eiginlega vera hálfgert svartnættisraus formanns Samfylkingarinnar þegar hann hóf þessa umræðu, umræðu sem er út af fyrir sig tímabært að taka. Við ættum í raun og veru að geta verið nokkuð sammála um að gleðjast yfir þeim mikla árangri sem við blasir í kjölfar síðustu kjarasamninga, þann stöðugleika sem felst í þeim skrefum sem hafa verið stigin og þau tímamót sem felast í því að launþegar í landinu ásamt Samtökum atvinnulífsins og aðildarfyrirtækjum þar hafa núna sameiginlega hagsmuni af því að efla hagkerfið, að stækka kökuna, stækka allar sneiðar kökunnar.

Þá voru allir aðilar sem komu að þessum skrefum núna sammála um það að mæta þeim sem minnst mega sín í okkar samfélagi, þeim sem eru á lægstu laununum, ungu fjölskyldufólki, eldri borgurum til að mynda, öryrkjum sem þetta hefur áhrif á, skattkerfisbreytingarnar hafa mikil áhrif þar inn. Fyrir utan það að stærsti ávinningurinn sem við okkur blasir er stöðugleiki og áframhaldandi vaxtalækkanir ef hlutirnir ganga upp í þeim anda sem stefnt er að með þessum kjarasamningum.

Virðulegur forseti. Ég hef áður sagt það að þessir kjarasamningar boða tímamót. (Forseti hringir.) Það verður ákaflega fróðlegt að fylgjast með þróuninni í kjölfar þeirra þar sem launþegar (Forseti hringir.) og aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið höndum saman um að hafa viðmið um stækkun kökunnar í þágu launþega í þessu landi.