149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að ríkisstofnunum verði gert kleift að auka launakostnað um 0,5% umfram verðlag, í stað 1,5% í fyrri áætlun. Það er mikilvægt að sjá þann mun því að á því ári sem liðið hefur frá síðustu áætlun, með 1,5% kaupmátt umfram verðbólgu, hefur verðbólguspá hækkað um 0,5% og kaupmáttarloforð hefur lækkað um 0,5% á móti.

Málshefjandi leggur líka áherslu á mönnunarvanda í stórum kvennastéttum, sem allir gera sér grein fyrir að er launatengdur. Miðað við fjármálaáætlun virðist stefnan því vera að engin breyting sé fyrirhuguð á þeim vettvangi. Það má því segja að stefna núverandi stjórnvalda leysi ekki þennan mönnunarvanda.

Já, það þarf að mennta fleiri kennara, en þá þarf líka að setja stefnu sem leiðir til þess að kennarar starfi sem slíkir. Það er aðallega launastefna.