149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:24]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að vekja athygli á þessum mikilvæga málaflokki og hæstv. forsætisráðherra fyrir innleggið. Mikilvægt er að heilbrigðisþjónustan sé vel mönnuð og að þverfaglegt samstarf gangi vel. Hver og einn starfsmaður er mikilvægur í heilbrigðisþjónustunni, ekki síður en í öðrum starfsgreinum. Skortur á heilbrigðisstarfsfólki hefur farið stigvaxandi síðustu ár og sér ekki fyrir endann á þeim vanda. Reyndar einskorðast mönnunarvandinn ekki við Ísland því að fleiri lönd glíma við sama vanda.

Talið er að hundruð hjúkrunarfræðinga vanti til starfa á Íslandi. Við það bætist að stór hluti hjúkrunarstarfsfólks nálgast eftirlaunaaldur og nýliðun er ekki nægjanleg. Þetta er stór og mikil áskorun og við þurfum að leita allra leiða til að tryggja mönnun í heilbrigðiskerfinu okkar.

Í þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er komið inn á þessi atriði og undirstrikað að nauðsynlegt er að einbeita sér að því að bæta aðstöðu, símenntun, öryggi og starfsumhverfi starfsmanna og að unnið verði að því að vinnutími og vaktabyrði starfsfólks verði í samræmi við bestu gagnreyndu þekkingu, lög og kjarasamninga til að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma. Þetta er einn mikilvægasti þáttur heilbrigðiskerfisins og forsenda þess að hægt sé að tryggja bæði öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi til framtíðar.

Virðulegi forseti. Nú eru lausir flestir samningar hjá heilbrigðisstéttum landsins. Þarna skapast tækifæri til að fara yfir starfsskilyrði og vinnuumhverfi heilbrigðisstarfsfólks. Huga þarf sérstaklega að vinnutíma og vinna markvisst að því að draga úr vinnuálagi hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Höfum í huga að þetta fólk ber mikla ábyrgð og ef álag verður of mikið eykst hætta á mistökum. Sem betur fer eru slík mistök sjaldséð en þau gerast engu að síður.