149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég verð fyrst að lýsa mig ósammála hv. þm. Þorsteini Víglundssyni þegar hann segir að stjórnvöld eigi helst ekki að koma að kjaramálum. Kjaramál ná nefnilega til svo margra sem ekki hafa aðild að kjarasamningum. Ég er ekki að gagnrýna samningana sem voru gerðir á vinnumarkaðnum. Ég er að gagnrýna aðgerðir stjórnvalda vegna þess að þær munu ekki gera neinar grundvallarbreytingar á samfélaginu.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu hér um að það væri hægt að horfa á allt frá dökku hliðunum og svo væri hægt að sjá björtu hliðarnar. Ég geri ráð fyrir því, já, að 65.000 aldraðir og öryrkjar í landinu horfi á hlutina aðeins öðruvísi en við 63 sem sitjum í þessum sal, einfaldlega vegna þess að aðstæðurnar eru töluvert aðrar. Þess vegna hlýt ég að ítreka spurningu til hæstv. forsætisráðherra sem hún svaraði ekki áðan: Mun ríkisstjórnin skoða alvarlega frumvarp Samfylkingarinnar um almannatryggingar sem mun tryggja öldruðum og öryrkjum sömu launahækkanir og samið var um í landinu?

Ráðherra kom líka inn á fæðingarorlofið. Ég mælti fyrir slíku frumvarpi fyrir nokkrum mánuðum. Það liggur fyrir. Eigum við þá ekki að klára það? Stofnframlögin. Það er beinlínis lækkun næstu fimm árin til húsnæðisstuðnings um 19%. Þó að það sé bætt aðeins í stofnfjárframlögin er allt of lítið gert.

Ráðherra talaði líka um skattkerfisbreytingar. Ég vil fá að vita: Á að frysta persónuafsláttinn? Hún talar ekki núna um hlutfallslega mest sem lægsta launaða fólkið fái, heldur mest. Vonandi misheyrðist mér ekki og vonandi boðar það frekari breytingar þannig að sá hópur fái raunverulega fleiri krónur í veskið.

Að lokum sagði hæstv. forsætisráðherra að það ætti og þyrfti að endurmeta fjármálaáætlunina og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin geri það. Ef ekki mun Samfylkingin leggja fram þær breytingartillögur sem eru nauðsynlegar til að laga (Forseti hringir.) kjör verst stadda fólksins í landinu.