149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

friðlýsingar.

821. mál
[16:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur kærlega fyrir fyrirspurnina. Friðlýsingar eru skoðaðar sérstaklega í ríkisstjórnarsáttmálanum og gott að fá tækifæri á þinginu til að ræða þær og varpa skýrara ljósi á stöðu mála.

Þingmaðurinn spyr um stöðu þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Samkvæmt náttúruverndarlögum gefur ráðherra út náttúruminjaskrá þegar Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um framkvæmdaáætlun um friðlýsingu og friðun, svokallaðan B-hluta hennar, til næstu fimm ára. Meiningin var að leggja þingsályktunartillögu þess efnis fram nú á vorþinginu en ég tók ákvörðun um að fresta því til næsta löggjafarþings.

Náttúrufræðistofnun Íslands skilaði á síðasta ári tillögum til ráðherra að náttúruminjum sem mynda net verndarsvæða vegna vistgerða annars vegar og búsvæða fugla hins vegar og tillögum að friðlýsingu nokkurra jarðminjasvæða. Sú aðferð að skipuleggja náttúruvernd í neti verndarsvæða hefur verið þróuð í tengslum við framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni og einnig Bernarsamningsins um villtar plöntur og dýr og búsvæði þeirra í Evrópu. Ein af ástæðunum fyrir því að framlagning þingsályktunartillögunnar seinkar fram á næsta þing er að ég óskaði eftir því við Náttúrufræðistofnun Íslands að hún myndi einnig vinna tillögur um friðlýsingu hella, fossa, lindasvæða og víðerna. Ég vænti þess að stofnunin skili þeim tillögum fljótlega af sér svo að vinna megi tillögurnar áfram eins og lög um náttúruvernd gera ráð fyrir, þ.e. í framhaldinu felur ráðherra Umhverfisstofnun að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun og kostnað við þær. Hér er átt við ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að ná verndarmarkmiði hugsanlegrar friðlýsingar, t.d. að stjórna umferð um svæðin, með lagningu stíga, svo dæmi sé tekið, útboði upplýsingaefnis og koma upp aðstöðu fyrir gesti. Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun verður því á þingmálaskrá næsta þings.

Í grunninn má skipta því sem Alþingi hefur samþykkt að friðlýsa á síðustu 20 árum í þrennt. Það eru þingsályktanir um náttúruverndaráætlun, ný heildarlög um verndarsvæði og breytingar á lögum og þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Með fyrri náttúruverndaráætluninni, 2004–2008, samþykkti Alþingi að unnið skyldi að friðlýsingu 14 svæða á landinu auk stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann var stofnaður með lögum frá Alþingi árið 2007 og þekur í dag tæplega 15% landsins. Auk þess er friðlýsingu lokið á fuglasvæðinu í Guðlaugstungum og hluta af fuglasvæðinu á Álftanesi/Skerjafirði, sem og sérstöku gróðurfari vatns og skógar í Skorradal, af þeim svæðum sem Alþingi samþykkti að friðlýsa með samþykkt áætlunarinnar.

Seinni náttúruverndaráætlunin, 2009–2013, tók til 11 landsvæða auk nokkurra tegunda lífvera, þ.e. háplantna, mosa, fléttna og hryggleysingja. Af þeim 11 svæðum hafa tvö vistgerðarsvæði verið friðlýst, friðlandið í Þjórsárverum verið stækkað og svæði í Skaftártungu og á Síðuafrétti urðu hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, rétt eins og eina jarðfræðisvæðið í þingsályktunartillögunni, Langisjór og nágrenni. Þá hafa Tjarnir á Innri-Hálsum í Berufirði verið friðlýstar en svæðið er búsvæði tjarnarklukku sem er einn af hryggleysingjunum sem Alþingi samþykkti að yrðu friðlýstir.

Þá samþykkti Alþingi árið 2004 breytingar á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum þar sem hann var stækkaður um tæpa 200 km². Sama ár samþykkti Alþingi ný lög um vernd Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og felldi úr gildi eldri lög sem náðu yfir allan Skútustaðahrepp. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna átti að friðlýsa landsvæði sem voru friðlýst með eldri lögum en féllu ekki innan gildissviðs nýju laganna. Af 11 landsvæðum hafa nú þrjú verið friðlýst og fjórða, stækkun á Vatnajökulsþjóðgarði á hálendi sveitarfélagsins fer í kynningu á allra næstu vikum.

Alþingi samþykkti árið 2013 að 20 virkjunarkostir á 12 svæðum skyldu flokkast í verndarflokk rammaáætlunar, þ.e. að þau svæði skyldu friðlýst gegn orkuvinnslu. Friðlýsingarferli fimm þeirra svæða er á lokametrunum og ég vænti þess að geta skrifað undir friðlýsingu þeirra á næstunni. Hin eru skemmra á veg komin en ég geri ráð fyrir að klára obbann af þeim á þessu ári.

Að endingu má geta þess að á þeim 20 árum hafa um 30 svæði verði friðlýst á grundvelli náttúruverndarlaga eða með breytingu reglugerða.

Svo skal nefna að nefnd þingmanna og fleiri vinnur að stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Störf nefndarinnar eru á áætlun og á hún að skila af sér í haust.

Síðasta sumar skipaði ég starfshóp sem í eiga sæti fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar og hópurinn vinnur nú að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlun og svæða sem eru undir álagi ferðamanna. Sú aðgerð var gagngert gerð til að greiða fyrir vinnu við friðlýsingar og er gaman að segja frá því að fyrsta friðlýsingin sem sá hópur hefur unnið að var kláruð fyrir nokkrum dögum, búsvæði fugla í Akurey á Kollafirði sem m.a. tekur til verndar lundans.

Þá vil ég einnig nefna að aukið fjármagn hefur verið sett í friðlýsingar, um 36 milljónir á ári frá og með árinu 2018.