149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

frestun töku lífeyris.

850. mál
[16:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram er komið er eitt þriggja markmiða áætlunarinnar varðandi málefnasvið 28, málefni aldraðra, að auka atvinnuþátttöku þeirra og innleiða aukna möguleika á sveigjanlegum starfslokum. Mig langar að byrja á því að segja að það er mikilvægt að auka atvinnuþátttöku aldraðra. Í því máli er það undir að stuðla að því að aldraðir fresti töku lífeyris frá almannatryggingum. Við lítum svo á að aldraðir á vinnumarkaði séu mjög verðmætt vinnuafl og búi bæði yfir reynslu og þekkingu. Rannsóknir sýna einnig að þeir sem stunda vinnu séu almennt heilsuhraustari og njóti meiri lífsgæða en aðrir, þá er ég að tala um hóp aldraðra. Við vitum að á undanförnum árum hafa sveigjanleg starfslok verið lögfest í almannatryggingum. Það eru úrræði sem er tiltölulega nýlega komin í lög, en það er mjög mikilvægt að vel takist til við að hrinda þeim úrræðum í framkvæmd í því skyni að aldraðir verði lengur á vinnumarkaði. En hér erum við að ræða sérstaklega um að ganga lengra í þessu efni. Við erum ekki sérstaklega að fjalla um hlut opinberra starfsmanna í áætluninni þó að þetta sé rétt ábending, þar eru sérstök lagaleg álitamál sem varða hámark starfsaldurs.

Það sem við höfum gert fram til þessa er að hefja skoðun á því hvaða áhrif það hefði á réttindi, til að mynda lífeyrisréttindi, og hvaða lögum þyrfti að breyta til þess að fella brott 70 ára viðmiðið um starfslokaaldur. Þessi skoðun stendur yfir. En strax í upphafi þá koma fram nokkur álitamál. Ég nefni t.d. hvernig eigi að fara með viðmið örorku- og makalífeyris ef aldurshámarkið er afnumið og hvaða áhrif það hefði á skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart B-deild LSR að gera þetta. Annað er það að víða í lögum er lögbundinn starfslokaaldur sem er lægri en þetta viðmið og þar má t.d. líta til lögreglumanna í því sambandi. Við munum þurfa að taka afstöðu til þess hvort væri ástæða til að endurmeta slíkar sérreglur í lögum þar sem þær hafa fram til þessa þótt hafa sér að baki vissan rökstuðning.

Síðan er það athyglisverð staðreynd í þessu samhengi að miðað við upplýsingar frá LSR þá hefur þróunin frekar verið í þá átt, og ég held að það tengist því að lífeyrisréttindi hafa farið batnandi á undanförnum árum, að starfsmenn kjósa að fara fyrr á lífeyri en áður. Það er athyglisverð staðreynd sem við hljótum að taka með í reikninginn, hvort við getum náð markmiðunum með því einu að breyta lagalega viðmiðinu. Sjálfur myndi ég kjósa að það væri sem mest frelsi í þessu, mönnum væri ekki gert að hætta þótt þeir hefðu náð þessum lögbundna starfslokaaldri, ef þeir hefðu fulla starfskrafta.

Það eru sem sagt vísbendingar um að lífeyristökualdur þeirra sem fóru beint úr starfi á lífeyri hafi lækkað úr rétt rúmlega 68 árum í um 67 ár á undanförnum tíu árum. Það er því sjálfstæð áskorun að fá starfsmenn til að fresta starfslokum sínum innan marka núverandi lagaramma.

Í þessu ljósi, á meðan við erum enn að skoða álitamál sem tengjast sérstökum lægri starfslokaréttindum, á meðan við greinum betur þessa þróun sem ég var að rekja og hvaða áhrif þetta kynni að hafa á B-deild LSR, álitamál í tengslum við örorku- og makalífeyrinn, þá er ekki orðið tímabært að fullyrða hvenær ráðist yrði í breytingar sem varða lögbundinn starfslokaaldur starfsmanna ríkisins. En við munum halda vinnunni áfram.