149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma hingað upp til að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að ekki hafi tekist betur til en raunin er að mynda einhvers lags sátt á milli þeirra hópa sem hér takast á. Það hefur verið furðugóð sátt í samfélaginu um þessi mál um langan tíma sem nú er rofin.

Það er hætt við að næstu misseri og ár munum við sjá hópa formast sem berjast aftur fyrir breytingum á þeim lögum sem reikna má með að verði samþykkt hér á eftir. Ég held að það hefði verið hollt margra hluta vegna að við tækjum okkur aðeins lengri tíma í að reyna að brúa bilið milli þeirra sjónarmiða sem hér takast á og stíga varlegar til jarðar í þessu viðkvæma máli.