149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir ríflega 40 árum síðan sagði Svava Jakobsdóttir hér á þingi um sama efni:

„Það er ekki fyrr en kemur að ákvörðunarréttinum sem deilurnar rísa. Þegar krafist er sjálfsákvörðunarréttar vanfærrar konu, þá er hrópað hátt um líf og synd og glæp. En þegar ákvörðunarrétturinn er færður í hendur embættismanna þagna þessar raddir. Þá er ekki lengur talað um synd og glæp.“

Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að breyta þeirri tímaframkvæmd sem nú þegar er til staðar. Það er fyrst og fremst verið að færa ákvörðunarvaldið til móðurinnar og færa löggjöfina út úr fortíðinni inn í framtíðina og inn í nútíðina. Ákvörðun um þungunarrof getur ekki verið tekin af kerfinu og embættismönnum heldur af konunni einni. Það er algjört grundvallaratriði um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Þetta er rétt skref, ekki rangt, og þetta er frumvarp sem ég styð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)