149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég fagna líklegri samþykkt þessa frumvarps og mig langar enn og aftur að árétta vegna fjöldamargra ummæla þingmanna um vikufjöldann og að ekki hafi verið hægt að hnika honum til sé einhvers konar óbilgirni af hálfu þeirra sem vilja standa við hann, að í skýrslu starfshóps sem hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, lét semja um lög um þungunarrof kemur fram — frá árinu 2016, nota bene, er þetta búið að liggja fyrir — með leyfi forseta:

„Ef þungun lýkur fyrir 23 vikur og fóstur vegur undir 500 g er það skilgreint sem fósturlát samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Ljúki þungun eftir 22 vikur er það skilgreint sem fæðing. Þessi viðmið hafa verið notuð á Íslandi frá árinu 1987 og er burðarmálsdauði miðaður við það í íslensku fæðingarskránni. Fóstur sem fæðist fyrir fullar 22 vikur þungunar hefur nánast engar líkur á því að geta lifað af. Við 23 vikna meðgöngu lifa um 10–35% barna af, …“

Þessar upplýsingar hafa legið fyrir mjög lengi. Þar er ekkert (Forseti hringir.) prútt. Þar er ekki einhver tilfinning sem við höfum. Þetta eru allir sérfræðingar sammála um.

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir …)

Þingmaðurinn segir já.