149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[19:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta mál sem er sérstakt að því leytinu til að það lýtur að því að framlengja ákvæði um séreignarsparnað, að hægt sé að nýta hann til að greiða inn á húsnæðislán til íbúðakaupa. Nú er það svo að ríkisstjórnin ákvað í fjárlögum síðasta árs, í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár, að þetta ákvæði myndi falla niður.

Ég vil taka fram að við í Miðflokknum erum með sams konar frumvarp fyrir þinginu þar sem við leggjum til að framlengja þetta ákvæði vegna þess að okkur þótti mjög óskynsamlegt að fella það niður. Þetta ákvæði hefur reynst mjög vel og nokkur þúsund aðilar nýta sér það samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Þess vegna er brýnt að það verði framlengt og ég fagna því.

Jafnframt langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort ekki sé óæskilegt að vera með svona hringlandahátt í máli þar sem fólk gerir ákveðnar ráðstafanir varðandi íbúðarkaup o.s.frv., að tilkynna það í síðasta fjárlagafrumvarpi að þetta falli niður og síðan er núna ákveðið að framlengja þetta. Eru svona vinnubrögð, hæstv. fjármálaráðherra, ekki óheppileg?