149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[19:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og tek heils hugar undir með honum með það að þetta hefur reynst ákaflega vel. Þess vegna lögðum við Miðflokksmenn fram sams konar frumvarp þegar það varð ljóst að ríkisstjórnin ætlaði að fella þetta úr gildi. Ég er fyrst og fremst að gagnrýna þessa aðferðafræði, að hringla með þetta fram og til baka, að koma með það fram í haust að heimildin verði felld niður. Auðvitað hefur það áhrif og veldur áhyggjum hjá t.d. ungu fólki og þeim sem ætla að greiða inn á sín lán að það stefni í það að heimildin verði felld niður. Síðan er tekin stefnubreyting í tengslum við kjarasamninga eins og hæstv. ráðherra segir réttilega. Það er þessi aðferðafræði sem mér hugnast ekki og er fyrst og fremst að gagnrýna. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta er mikilvægt úrræði og hefur reynst mjög vel.