149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[19:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir kannski mestu varðandi fyrirsjáanleika þessara mála er að við erum hér með ívilnandi aðgerð. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er auðvitað best að þessir hlutir liggi fyrir til sem lengstrar framtíðar hverju sinni. Fram til þessa hafa menn mátt gera ráð fyrir því að úrræðið sem upphaflega var til þriggja ára, var síðan framlengt og síðan erum við að framlengja það aftur núna um tvö ár, myndi taka enda í sumar. Með ívilnandi ákvörðun erum við að framlengja úrræðið þannig að ég sé ekki alveg þennan vanda sem kann að skapast af því að leggja þetta til núna.

Við hv. þingmaður erum sammála um meginatriðin. Það er vonandi þannig með þingið almennt að við höfum verið sammála um að þetta væri skynsamlegt. Ein af ástæðunum fyrir því að menn hafa verið sáttir við að heimila svo snemmbúna úttekt á séreignarsparnaði með skattleysi er sú að menn hafa talið að það myndi ekki raska um of lífeyrisréttindum í framtíðinni. Undirliggjandi er auðvitað sú hugsun að lífeyrissparnaðurinn að öðru leyti myndi duga og þetta væri afmarkaður tími. Ég get ekki séð fyrir mér t.d. að við látum það vera viðvarandi ástand að einhver sem er segjum 25 ára sé með eitthvað sem er kallað séreignarsparnaður en taki jafnóðum út af honum alla starfsævina og verji til húsnæðis. Þá er það í raun og veru enginn séreignarsparnaðar og við eigum að fara að kalla hlutina réttum nöfnum.