149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[22:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson talar margsinnis um að við séum að grauta öllu saman og að fegurðin leynist í einfaldleikanum. Ég verð aftur að segja, og hryggja hv. þingmann með því, að þetta frumvarp er ekki tækt til meðferðar vegna þess að í því er einmitt öllu grautað saman. Það er verið að nota orðið umgengni yfir þá sem ekki njóta umgengnisréttar, vegna þess að þeir eru lögheimilisforeldrið. Það er verið að tala um að sáttameðferð sé löngu lokið þegar sáttameðferð er lögbundin, ætli menn að krefjast einhverrar afgreiðslu hjá einhverri stofnun. Það skiptir engu máli þó að maður sé með pappíra upp á að maður eigi rétt á umgengni. Við erum með ákveðið fyrirbæri sem heitir sýslumaður og ekki hægt að gera neitt nema að fara í gegnum hann.

Flutningsmenn frumvarpsins ætla að fara að nota barnavernd í þetta mál. Barnavernd mun ekki fara í þetta mál af því að barnavernd hefur engin völd til þess. Þá þarf hv. þingmaður að aftengja allt kerfið. Þá þarf að byrja á réttum enda til að grauta ekki öllu saman og enda úti í skurði með eitthvað sem hv. þingmenn ráða ekkert við, þ.e. að það sé allt í einu komið inn ákvæði í lög um að beita megi refsingum sem enginn veit hvernig á að fara með.

Hv. þingmaður fer að beita fyrir sig meginreglum í sakamálaréttarfari inni í miðjum barnalögunum þegar lögbundið er að það eigi að fara fram sáttameðferð. Það hefur heldur betur verið kvartað yfir því. Þolendur ofbeldis þurfa að gjöra svo vel að mæta í sáttameðferð með gerendum til að fá skilnað og til að geta komið málum sínum inn til dómara.

Við skulum bara taka til í þessum lögum öllum (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að henda inn einhverju algjörlega vanreifuðu.