149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

571. mál
[22:53]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ákveðna sögulega yfirferð og fyrir einhvers konar stuðning við mikilvægi þess að skoða þessi mál. Mig langaði að fá að spyrja hv. þingmann aðeins út í afstöðu hans gagnvart frumvarpinu sjálfu.

Ég heyri að hann talar um mikilvægi þess að við förum að skoða þessi mál heildstætt. Þó að mér finnist oft mikilvægt að „skoða málin heildstætt“ fæ ég alltaf svona smá grænar bólur — að þá skuli henda málum í nefnd og taka sér fimm ár í að skoða þau. Mér finnst í sjálfu sér alls ekkert athugavert við að fara í heildstæða endurskoðun á þessum málum og skoða þetta í krók og kima.

En ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað konkret, eitthvað sérstakt, í efni þessa frumvarps sem veldur hv. þingmanni áhyggjum, verði það samþykkt. Hvort það sé eitthvað athugavert við það að þetta verði bara fyrsta skrefið sem svo síðar verði kveikjan að þessari heildarendurskoðun. Eða hrýs honum hugur við einhverju afmörkuðu í þessu frumvarpi?