149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

571. mál
[22:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég myndi svara þessu að því leyti að ég teldi mig eiga erfitt með að taka afstöðu til tillagnanna sem hér liggja fyrir nema með því að átta mig á þessu aðeins í meira heildarsamhengi. Ég held að við höfum fyrir augunum fjölmörg dæmi um að mál geti þvælst um í kerfinu vegna alls konar kærumöguleika og alls konar ágreinings sem upp getur komið í ferlinu, árum saman, án þess að nokkur niðurstaða fáist.

Ég væri hikandi við að samþykkja rýmkun kæruheimilda nema ég sæi það í einhverju samhengi við að það væri þá hugsanlega einfaldað á einhverjum öðrum stöðum á móti, að það væri þá með einhverjum öðrum hætti gert að verkum að ekki væri bara um að ræða að auka kæruheimildir á einhverju sviði, til viðbótar við allt sem er fyrir, öðruvísi en við höfum þá einhverja heildarsýn á það hvernig ákvarðanataka í þessum efnum á að fara fram.

Ég held að ég hafi orðað einhverja hugsun í þessa veru hér 2011 og alveg örugglega í tengslum við aðra löggjöf, t.d. þegar breytingar voru gerðar á náttúruverndarlögum og fleiri lögum, að það þyrfti að huga að þessu heildstætt. Ég segi að ef við ætlum að bæta við kæruheimildum myndi ég vilja sjá það í einhverju heildarsamhengi áður en ég segi já eða nei við slíkum tillögum.