149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Það er rétt hjá þingmanninum að nokkur gagnrýni hefur komið fram, bæði frá formanni þessa tiltekna félags innan Læknafélags Íslands en einnig bárust umsagnir frá öðrum sérgreinafélögum innan Læknafélagsins, til að mynda frá Félagi íslenskra heimilislækna. Gagnrýnin þar, að mínu viti, gekk að mestu leyti út á það að stefnan væri ekki skrifuð út í nægjanlega miklum smáatriðum. Þegar maður les í gegnum gagnrýni þessara aðila fjallar hún fyrst og fremst um það.

Einn af töluliðunum í heilbrigðisstefnunni, 8. liðurinn, heitir Stefnan í framkvæmd. Hún orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi. Heilbrigðisráðherra skuli árlega leggja fram aðgerðaáætlanir heilbrigðisstefnunnar til umræðu á Alþingi.“

Eins og ég gat um í ræðu minni er ráðherra þegar byrjaður að vinna slíkar áætlanir og leggja þær fram. Þingið hefur þegar vísað einni slíkri áætlanagerð sérstaklega til ráðherra og ráðherra hefur tekið fram í hverju þessir þættir séu sérstaklega fólgnir. Ég get því ekki tekið undir gagnrýnina þó að ég skilji í sjálfu sér þær áhyggjur sem þessir aðilar hafa. Ég held að óhætt sé að fullyrða að heilbrigðisstefnan nær með sínum breiðu strokum ágætlega undir þá þætti sem þessir aðilar hafa verið að gagnrýna.