149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan og raunar einnig hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir í framsögu sinni að nefndin fjallaði einmitt um þetta og tekur það raunar sérstaklega fram á bls. 3 í nefndarálitinu, ætli það sé ekki í þriðju málsgrein þar sem er fjallað sérstaklega um þessa þætti. Auðvitað eru þar nefndir þættir eins og sjúkraflutningar og fjarheilbrigðisþjónusta. Það er einnig tekið fram að þættir eins og fjarlægðir og kostnaður sem þessir íbúar kunna að búa við skipti máli og ráðuneytið verði að huga sérstaklega að því.

Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan og við 1. umr., ef ég man rétt, þá munum við ekki setja upp fullkomna heilbrigðisþjónustu alls staðar á landinu. Við erum hreinlega ekki nægilega stórt eða fjölmennt samfélag til þess. Við verðum fyrst og fremst með þriðja stigs þjónustu á tveimur stöðum, á Akureyri og Reykjavík. Sú þjónusta sem við erum með í fámennari byggðum verður að vera þannig úr garði að hún dugi til að greina vandamálin, til að átta sig á í hverju þau eru fólgin og velja framhaldið fyrir viðkomandi sjúklinga. Þannig verður sú þjónusta. Við verðum fyrst og síðast með fyrsta stigs þjónustu í hinum dreifðari byggðum, þar með talið á sumum af minni sjúkrahúsunum úti á landi. Við verðum ekki með mikið af annars stigs þjónustu þar og sennilega mjög sjaldan þriðja stigs þjónustu þó að auðvitað séu til undantekningar eins og til að mynda núna á sjúkrahúsinu á Neskaupstað þar sem er verið að stunda blóðskilun hjá sjúklingum en þá í samvinnu við Landspítalann. Litlir spítalar úti á landi ráða ekki við slík verkefni einir.