149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Eins og ég nefndi í ræðustúfi mínum hefur heilbrigðisstefnunnar verið beðið lengi. Við höfðum væntingar um að mörkuð yrðu spor og kúrsinn settur skýrt og greinilega. Þetta yrði vegvísir, eins og landakort, og út frá þessu gætum við ákvarðað hvernig við byggðum kerfið upp og á hvaða stigi hvaða þjónusta yrði veitt. Það hefur tekist að nokkru leyti en þetta er mjög almennt orðuð stefna. Eins og ég nefndi er hún hjálmur yfir mjög margflókinn málaflokk og það er matsatriði hve mikið eigi að taka inn í þessa stefnu.

Ég get ekki tekið undir að því hafi verið tekið með fáleik að setja fleiri þætti inn í stefnuna sem lúta að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það kemur hér fram að jafna eigi aðgengi að þjónustu í heilsugæslunni. Það á við um landsbyggðina jafnt sem aðra staði. Við á landsbyggðinni höfum ekki orðið vör við þetta enn þá. Starfsfólk á landsbyggðinni býr við jafn þröngan kost í þessu efni og verið hefur og það skynjar ekki enn þær breytingar sem boðaðar eru. En vonandi fáum við að sjá það í framkvæmdaáætlun.