149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni svarið. Ég hef ákveðinn skilning á þeim sjónarmiðum sem komu fram í svari þingmannsins þar sem hann segir að heilbrigðisstefnu hafi verið beðið lengi. Auðvitað hafa einstaklingar eins og hann, sem hafa starfað innan þessa geira og stýrt stofnun, skilning á því hvers lags ófremdarástand það hefur verið að slík stefna hafi ekki verið til staðar. Á sama tíma hafa einstaklingar sem hafa ágæta þekkingu á málasviðinu væntingar um að þetta sé gert almennilega, ekki sé bara verið að henda fram heilbrigðisstefnu til að geta hakað í það box að til sé heilbrigðisstefna. Þá held ég að það væri betra verklag að gera hlutina almennilega og ítarlega og reyna að koma málinu þannig fram að þeir sem gerst þekkja til séu þó ekki væri nema sæmilega sáttir.

Ég held að öllum hljóti að þykja undarlegt að heyra þessa upptalningu hv. þingmanns — auðvitað ber að virða honum það til vorkunnar að vera stjórnarandstöðufulltrúi í nefndinni þannig að maður hefur skilning á því að hann stýri ekki meirihlutaálitinu frá A til Ö, en hann er þó á því eða fulltrúi hans á þeim fundi sem málið var tekið út á.

Ég leyfi mér að tala um algjöra þögn eða þar um bil um hagsmuni landsbyggðarinnar í þessari stefnu og spyr hv. þingmann: Sér hann fyrir sér að það verði allt saman leyst í einhverri aðgerðaáætlun? Eða sér hann fyrir sér að lögð verði fram breytingartillaga við þingsályktunartillöguna í meðförum fram að lúkningu málsins?