149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni hið síðara andsvar. Hér liggur fyrir tillaga að heilbrigðisstefnu fyrir allt landið, ekki bara fyrir landsbyggðina, ekki bara fyrir Reykjavík, ekki bara fyrir Akureyri, ekki bara fyrir Landspítalann og ekki bara fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri þó að þessir þættir fái dálitla umfjöllun í þessari tillögu.

Það kemur skýrt fram í þessari tillögu til heilbrigðisstefnu að heilsugæslan er grunnþáttur í allri heilbrigðisþjónustu landsmanna. Heilsugæslan er mikilvægasta heilbrigðisþjónustan og hún verður, samkvæmt þessari tillögu, byggð upp um allt land. Menn hafa hafið uppbygginguna hér í Reykjavík, en okkur finnst ganga seint að koma umbótum fram utan Reykjavíkur og koma þessari hugmyndafræði sem menn stefna að, t.d. varðandi nýtt rekstrarform, til framkvæmda út um landið.

Ég hef tilhneigingu til þess, þó að landsbyggðarmaður sé, að forðast að stilla landinu upp annars vegar í Reykjavík og svo landsbyggðina, þó að þarna sé mikill munur á. Rauði þráðurinn hér er kannski að landsbyggðin njóti stuðnings frá háskólasjúkrahúsinu, Landspítalanum, sem er höfuðstofnun landsmanna. En ég hef ekki tilfinningu fyrir því hvort menn muni gera alvarlegar breytingar á þessari stefnu í því ljósi sem nefnt er.