149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:55]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um mikilvægt mál sem er heilbrigðisstefna til ársins 2030. Það hefur verið nefnt þegar við ræðum heilbrigðisþjónustuna að mikilvægt sé að hafa stefnu og að allir sem koma að því stóra viðfangsefni sem heilbrigðiskerfið og heilbrigðismálin eru rói í sömu átt. Það er gríðarlega mikilvægt.

Þá er líka mikilvægt að unnið sé í þágu þeirra sjúkratryggðu, þágu notenda þjónustunnar. Það á að vera aðalatriðið í svona stefnu hvaða þjónusta það er sem við ætlum að tryggja borgaranum, af hvaða gæðum hún á að vera, eftir hvaða mælikvörðum við förum og hvernig við forgangsröðum þeirri þjónustu. Það er stefnan. Svo kemur að þeim framkvæmdaáætlunum sem er talað um hér, varðandi það hvernig við fylgjum þeirri stefnu sem best hverju sinni. Það er því kannski eðlilegt að ekki sé farið mjög djúpt í einstakrar einingar innan heilbrigðiskerfisins, af því að það getur verið breytilegt eftir hverjum tíma hvernig við nýtum einingarnar, hvar við veitum þjónustuna og hvernig til þess að ná markmiðum stefnunnar.

Stefnuna er auðvelt að taka undir. Við viljum að allur almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna er tryggt. Það er grunnurinn sem við hljótum öll að vilja. Við viljum hafa þjónustuna á heimsmælikvarða. Við vorum algjörlega sammála um það í nefndinni, og ég held að við séum það öll, að stóra verkefnið er að stuðla að lýðheilsustarfi og heilsueflingu með forvörnum. Það verðum að gera. Við viljum veita þjónustuna á fyrsta stigi, vera með forvarnir og taka á heilsufrávikum strax í upphafi, helst koma í veg fyrir þau, þannig að um leið og þau byrja skuli taka á þeim. Við skulum takmarka þörfina á þriðja stigs þjónustu eins mikið og hægt er.

Ég held að þetta sé algjörlega grunnurinn og til þess þurfum við að hafa allar tiltækar upplýsingar um hvernig okkur tekst til. Það þurfa að vera mælikvarðar til að mæla gæði og öryggi þjónustunnar sem við veitum, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar. Við þurfum það allt saman til að ná markmiðum stefnunnar. Þá sjáum við hvernig framkvæmdaáætlanir virka.

Þannig horfi ég á heilbrigðisstefnunu, hvernig við náum markmiðum hennar. Ég átta mig alveg á því að það er erfitt að vera með stóran og fjölbreyttan málaflokk án þess að flakka á milli: Bíddu, hvort er ég að tala um eitthvað sem á að vera í framkvæmdaáætluninni eða um eitthvað sem á að vera í stefnunni?

Þess vegna vildi ég byrja á að segja að mikilvægt er að við hugsum hvaða þjónustu við ætlum að tryggja almenningi. Það er stefnan okkar. Svo þurfum við að finna bestu leiðir til að uppfylla markmiðin og hafa einhverja mælikvarða til að mæla hvort við séum að ná þeim.

Það er líka mikilvægt að nýta stefnuna til að hjálpa okkur að forgangsraða innan heilbrigðiskerfisins. Á hvað viljum við leggja áherslu? Hvar viljum forgangsraða fjármununum? Hvar teljum við best að ná markmiðum okkar? Ég held að leggja þurfi enn ríkari áherslu á forvarnir og lýðheilsu. Það er gríðarlega mikilvægt. Þannig getum við tryggt að sem flestir á Íslandi búi við góða heilsu. Ef við náum að efla þann þátt höfum við miklu meira svigrúm og miklu meiri fjármuni til að veita þeim sem þurfa meiri heilbrigðisþjónustu, ef við komum í veg fyrir að sem flestir færist upp stigann í annars og þriðja stigs þjónustu.

Þess vegna er ekki farið djúpt í einstaka þætti stefnunnar. Þeir voru samt sem áður ræddir mikið í nefndinni og við fengum mikið af athugasemdum og ábendingum, sem var mjög gott.

Það var svolítil umræða um hvar og hvernig þjónusta væri veitt, sem heitir hér Rétt þjónusta á réttum stað. Þar tel ég mikilvægt til að ná markmiðum um örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu um allt land, það eiga allir rétt á bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu, að hafa svigrúm í því hvað þjónustan er veitt, hún sé ekki öll á einum stað heldur sé fólki leyft að þróa og finna út úr því hvar henni sé best fyrir komið.

Komið er skýrt inn á þetta, bæði í fyrsta og annars stigs þjónustu. Auðvitað viljum við hafa heilsugæsluna sem öflugasta um allt land og hún er úti um allt land og hún er vel dreifð. Þess vegna er mikilvægt að heilsugæslan sé öflug og fjölþætt, að þjónustan sem er veitt þar sé sem fjölbreyttust, þjónusta sem allir eiga augljóst aðgengi að í dag. Þannig er það líka með annars stigs þjónustuna, sem við komum inn á í álitinu, hún er veitt víða og það þarf að passa. Við þurfum að ræða mikið hvað Landspítalinn – háskólasjúkrahús á að veita mikið af annars stigs þjónustu, af því að það getur verið hagkvæmara og öruggara og betri þjónusta við borgarana um allt landið ef hún er veitt af sjálfstæðum sérfræðingum eða innan einstakra heilbrigðisstofnana úti um land. Þetta þekkjum við á mörgum stöðum annars staðar á Norðurlöndum, að sérfræðingarnir fara út og nota heilbrigðisumdæmisstofnanirnar til að veita vissa annars stigs þjónustu. Þannig dreifist þetta og þeir ná að þróa sig áfram, frekar en að þjónustuna sé öll á einum stað, þá verður kannski minni framþróun og minni fjölbreytni. Við þurfum að huga vel að því.

Það er annað sem við fjöllum um og það er að mikilvægt sé að við stefnum að því að tæknin fái að koma í fjarheilbrigðisþjónustunni og öllu því og að hún sé aðgengileg. Það er eitt það af því sem er stefnan hjá mér, að allir hafi aðgengi, hvort sem það er að tæknilega hlutanum eða fýsíska hlutunum, þannig að hvar sem fólk býr á landinu hafi það raunverulegt aðgengi að þjónustu. Annaðhvort veitir heilsugæslan eða umdæmissjúkrahúsið fólki þjónustuna eða þeir sérfræðingar sem starfa um allt land. Það á líka við ef þjónustan er veitt rafrænt í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu, fólk þarf að hafa aðgengi henni algjörlega óháð búsetu, þannig gætu höfuðborgarbúar mögulega nýtt hana t.d. Það mega ekki vera tæknilegar hindranir sem koma í veg fyrir að ný tækni og framþróun nái fram. Ef það er eitthvað lagalegt verða stjórnvöld að taka vel á því.

Sjúkraflutningar eru einnig nefndir í álitinu. Eins og kom fram fyrr í dag samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu um bráðaþjónustu utan spítala. Þróunin virðist alltaf fara í hringi. Við höfum heyrt sögur af læknum fyrri alda sem fóru alltaf í vitjanir. Læknarnir fengu fólk ekki mikið til sín á spítalann heldur fóru til fólksins og hjúkruðu því.

Það er kannski það sem er að gerast núna með aukinni sérhæfingu og samþjöppun og aukinni þróun í heilbrigðiskerfinu. Sjúkraflutningarnir eru að breytast í það að veita þjónustu á vettvangi. Í vissum tilfellum er hægt að veita mjög góða heilbrigðisþjónustu fyrr en ella, þótt náttúrlega þurfi alltaf að flytja viðkomandi á sjúkrahús. En þjónustan er veitt strax á vettvangi og er mikilvægt að slík þjónusta fái að dafna og henni sé veitt athygli og hún byggð upp.

Svo er annað varðandi aðgengið sem ég tel vera stóran part af þessari stefnu, sem við þurfum að hafa í huga. Það er ekki bara ferðakostnaður sjúklingsins eða þjónustuþegans heldur aðstandenda. Viðkomandi missir kannski úr vinnu eða þarf að búa einhvern staðar um tíma og hafa aðstandendur sér við hlið. Það kerfi þarf að hugsa í heild sinni til að tryggja raunverulegt aðgengi. Það hlýtur að vera hluti af framkvæmdaáætluninni að hafa það í huga.

Ég er búinn að fara yfir helstu atriðin sem ég ætlaði að ræða og leggja áherslu á. Við erum með stefnu og snúa ákveðnir þættir að því að aðgengi sé tryggt, að hægt sé að tryggja framþróun og gæði þjónustunnar og að hún sé veitt á sem hagkvæmastan hátt um allt land. Það þarf að vera skýrt leiðarljós fyrir þær framkvæmdaáætlanir sem munu koma í framtíðinni. Ég treysti því að nú leggist allir á árarnar og rói í sömu átt, í þá átt að búa hér til besta heilbrigðiskerfi í heimi, sem má segja að stefnan stefni að.