149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér kemur það mjög á óvart sem fram kom í máli hv. þingmanns og formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Birgis Ármannssonar, að hinn lagalegi fyrirvari sé ekki annað en einhver fréttatilkynning eða texti í greinargerð. Fyrirvarinn er ekki í texta þingsályktunarinnar. Það var hins vegar talað um það í greinargerð að hin umdeilda reglugerð, nr. 713, verði innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara. Hvar er hann?

Þetta leiðir í ljós að málatilbúnaðurinn í málinu er meiri lögfræðilegur óskapnaður en maður hafði þó ímyndað sér. Auðvitað verður að kalla eftir mati á þjóðréttarlegu (Forseti hringir.) gildi þessa lagalega fyrirvara sem að því er virðist er ekki til.