149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Upprunaleg krafa hv. þingmanns var að hingað kæmi ráðherra til að útskýra þennan fyrirvara, hann kæmi hingað í hús vegna þess að fyrirvarinn væri hvergi skrifaður niður. Nú hafa tveir hv. þingmenn í andstæðum flokkum, mjög andstæðum flokkum, sem eru þó sammála um þetta mál, hv. þm. Birgir Ármannsson og ég — ég er nú ekki vanur að vera í sama liði og hann í fundarstjórn forseta, verð ég að segja. (BN: Það er bara gaman.) Ágæt tilbreyting. En mér hefur nú verið bent á hvar þennan fyrirvara sé að finna. Það er því óþarfi að fá ráðherra í hús af þeim sökum. Ef hv. þingmaður vill fá ráðherra í hús af einhverjum öðrum ástæðum, gott og blessað, en þetta tel ég ekki tilefni til að sækja ráðherrann vegna þess að það liggur fyrir og stendur skrifað svart á hvítu í greinargerð þingsályktunartillögunnar hverjir þessir fyrirvarar verði, orðrétt.

Sömuleiðis langar mig að nefna, vegna þess hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson fór út í lagagildi þingsályktunartillagna, að ég er mjög meðvitaður um hvernig þær virka. Þetta er þingsályktunartillaga og greinargerðin hefur lagaskýringargildi, útskýrir hvaða heimildir það eru, á hvaða grunni heimildirnar sem eru gefnar í (Forseti hringir.) meginmáli þingsályktunartillögunnar veita ráðherranum. Það ætti að vera alveg skýrt.

Óháð því halda hv. þingmenn varla að ráðherrann ætli að sleppa þessum fyrirvara. Ef þeir ætla að saka hæstv. ráðherra um það þurfa þeir bara að segja það upphátt, að þeir treysti ekki ráðherranum til að lesa upphátt eða skrifa niður eða „copy/paste“ það sem stendur í tillögunni sjálfri. (Forseti hringir.) Efnið er að finna í tillögunni. Það er ekki ástæða til að kalla til ráðherra til að útskýra þetta tiltekna efni, virðulegi forseti.