149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:41]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Óli Björn Kárason krefst þess að við ræðum hér fundarstjórn forseta, en það er akkúrat það sem við erum að gera. Verið er að stýra fundi og kallað er eftir því að fyrir liggi gögn sem menn geti kynnt sér. Ég held að það sé ekki nema eðlilegt að það sé gert á þessum vettvangi. Hvaða annar vettvangur væri betri?

Ég held að það sé gott að þessi fyrirvari liggi fyrir og að við getum þá tekið afstöðu til hans vegna þess að eins og ég les þetta er talað um að við innleiðum þessar reglugerðir með hefðbundnum hætti inn í íslenskan rétt en svo verði gerður lagalegur fyrirvari. En hver er þessi lagalegi fyrirvari? Heldur hann? Og hver ætlar að taka afstöðu til þess hvort hann haldi?