149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að byrja á að tala aðeins um traust á stjórnmálum yfirleitt — og í tengslum við þetta mál. Uppi eru andstæðar skoðanir á þessu máli, annars vegar frá Sjálfstæðisflokknum, ríkisstjórninni svo sem, en ég horfi sérstaklega á Sjálfstæðisflokkinn því að ég hef bara ákveðna fordóma gagnvart þeim flokki, sem ég veit fullkomlega af sjálfur. Þess vegna set ég mikla fyrirvara við allt sem hann segir og grandskoða það sem kemur frá honum til að vera viss um að það séu ekki bara fordómar mínir sem valda þeim áhyggjum sem ég hef sjálfkrafa af öllu sem kemur þaðan. En líka frá Miðflokki. Ég er með svipaða fordóma þar og ég geri mér fullkomlega grein fyrir þeim. Þess vegna verð ég líka að skoða allt sem kemur þaðan til að vera viss um að ég taki ekki bara ákvörðun út frá fordómum. Þegar þessir tveir aðilar eru á öndverðum meiði, annar er með en hinn á móti, get ég ekki svo auðveldlega verið á neinni sérstakri skoðun því að þá er ég sammála öðrum hvorum flokknum, sem ég hef ákveðnar skoðanir á.

Þess vegna er það eina sem ég get gert að lesa og lesa og skoða gagnrýni án þess að hafa hugmynd um hver færir hana fram. Ég sé einfaldlega gagnrýni og reyni að máta hana við texta orkupakkans og finna hvar greinin sé, hvar textinn sé, sem valdi gagnrýni og áhyggjum. Hvar er textinn sem veldur áhyggjum af að um einhverja íhlutun erlendra aðila sé að ræða? Hvergi. Hann finnst ekki. Við höfum alltaf valið. Við höfum stjórn á því hvernig við skipuleggjum orkumál hérna innan lands.

Það eru allir sammála sem hafa komið í umræðuna um að þetta mál snúist ekki lengur um yfirráð yfir auðlindum, eins og talað var um fyrst í umræðunni. Það eru allir sammála sem hafa komið og bakkað með þann málflutning, að það þurfi að einkavæða eitthvað. Það er ekki málið í þessu. Það eina sem virðist standa eftir í þessari umræðu er valdframsalið.

En áður en ég fer nánar út í valdframsalið, eins og ég hef gert í nokkrum andsvörum: Ég tel þær áhyggjur sem fólk hefur af þessu máli fullkomlega réttlætanlegar. Fullkomlega. Það eru sögulegar ástæður fyrir þeim og það eru samtímalegar ástæður sem varða ákveðin vandamál, sem eru jarðalög. En raunverulega vandamálið akkúrat eins og er, svo ég fái séð: Er það á réttum stað? Það er ekki þriðji orkupakkinn, það er þjóðarsjóður. Þangað á að setja allan arð Landsvirkjunar og þar á að setja einhverja utanaðkomandi stjórn yfir því hvernig eigi að stýra þeim arði, miðað við núverandi útgáfu þess frumvarps. Og ef þar hringja ekki allar bjöllur, eins og þær hafa gert í þessu frumvarpi, veit ég ekki hvað.

Því það er ekkert í þessum pakka sem veldur mér þeim áhyggjum sem ég sé í þjóðarsjóðnum. En þar er miklu erfiðara að finna einhvern erlendan óvin, einhverja íhlutun erlendra aðila — sem vekur líka ákveðin viðbrögð sem oft er erfitt að tékka á. Evrópusambandið er mjög auðveldur óvinur hvað þetta varðar.

En við erum að fjalla um þennan orkupakka, sem er í heildina átta skjöl, sem sagt fjórar reglugerðir, tvær tilskipanir og tvær ákvarðanir framkvæmdastjórnar. Í þeim er ýmislegt sem snýr að jarðgasi og því er Ísland undanþegið þeim gerðum. Og eftir eru þrjár reglugerðir og ein tilskipun: Reglugerðir um samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, reglugerð um aðgang að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri, reglugerð um afhendingu og birtingu gagna á raforkumörkuðum og svo að lokum tilskipun um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun. Sleppum því.

Ég ætla að fjalla aðeins — vonandi næ ég alla vega einhverju af því — um það tvennt sem helst er mikilvægt, þ.e. annars vegar valdframsalið og svo hugsanlega hvað sé til bóta. Ég sé hversu langt ég næ með það.

Varðandi valdframsalið kemur það fram í reglugerðinni um samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði. Tilgangur samstarfsstofnunarinnar er sagður að aðstoða eftirlitsyfirvöld í hverju landi fyrir sig með sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og við að framkvæma á vettvangi — þá vettvangi ESB því að þetta er reglugerðin eins og hún kemur þaðan — eftirlitsverkefni sem sinnt er í aðildarríkjum og samræma aðgerðir eftirlitsstofnana.

Það er fjallað sérstaklega um þær tegundir aðgerða sem stofnunin sinnir. Hún gefur út álit og tilmæli í nokkrum atriðum til flutningskerfisstjóra, til eftirlitsyfirvalda og til Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Þetta eru álit og tilmæli, ekki bindandi eða neitt svoleiðis. En síðan getur hún tekið einstakar ákvarðanir. Hérna er valdframsalið: Það er hægt að taka ákvörðun um sérstök tilvik — mikilvægt orð, sérstök. Þessi sérstöku tilvik getur um í 7., 8. og 9. gr. í þeirri reglugerð, þ.e. það er nákvæmlega þar sem maður getur fundið þær. Í 7. gr. er fjallað um verkefni að því er varðar landsbundin eftirlitsyfirvöld. Í 1. mgr. kemur fram, með leyfi forseta: „Stofnunin skal samþykkja einstaka ákvarðanir um tæknileg málefni.“

Í 3. mgr. er stofnuninni gert að setja ramma um samvinnu landsbundinna eftirlitsyfirvalda og taka tillit til afraksturs slíkrar samvinnu við framsetningu eigin álita, tilmæla eða ákvarðana. Það þarf sem sagt að taka tillit til einstakra landsbundinna eftirlitsyfirvalda.

Í 7. mgr. er fjallað um að stofnunin þurfi að ákveða skilmála eða skilyrði fyrir aðgangi eða rekstraröryggi grunnvirkis fyrir raforku sem tengir a.m.k. tvö aðildarríki. Það er fjallað um það í 8. gr. hvernig stofnunin ákveður þá skilmála og skilyrði; sem færir okkur þá að 8. gr. Í 7. gr. er ekkert rosalega mikið valdframsal sem slíkt, enda er í álitsgerðum sem hafa komið hingað til þingsins aðallega fjallað um 8. gr., þ.e. um verkefni sem varða skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að og/eða rekstraröryggi grunnvirkis yfir landamæri — og þarna eru lykilorðin „grunnvirki yfir landamæri“. Stofnunin tekur ákvörðun í málum sem varða reglusetningu, falla innan valdheimilda landsbundinna eftirlitsyfirvalda og innihalda skilyrði og skilmála um aðgang að og rekstraröryggi, ef landsbundin eftirlitsyfirvöld hafa ekki komist að samkomulagi um málið innan sex mánaða eða ef öll landsbundin eftirlitsyfirvöld biðja um ákvörðun saman. Það er meira að segja hægt að biðja um sex mánaða frest til að komast að samkomulagi áður en stofnunin kemur að málinu.

Hér er lykilatriði. Þeir skilmálar og skilyrði sem eru fyrir aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri „skulu taka til,“ á ensku: „shall include“. Það eru fjögur atriði sem stofnunin hefur vald til að taka ákvörðun um, þ.e. verklagsreglur fyrir úthlutun flutningsgetu:

Hversu miklu er verið að úthluta af flutningsgetu með sæstrengnum eða þessu grunnvirki yfir landamæri?

Hvernig er verklagið við að úthluta slíkri flutningsgetu? Tímamörk úthlutunar þegar er verið að fara í útboð um flutningsgetu: Hversu lengi fær sá sem vinnur útboð að hafa aðgengi að þessari flutningsgetu?

Hver er hlutdeild í tekjum vegna kerfisangar? Þ.e. ef upp kemur orkuskortur einhvers staðar er orka flutt að, þaðan sem er aukaorka, og það er borgað fyrir hana. Hvernig skiptist það á milli þeirra landa sem eru með aðgang að þessu grunnvirki yfir landamæri?

Og svo að lokum álagningargjald á notendur grunnvirkis þar sem eru gjöld tekin af notendum samtengils. Aftur bara varðandi grunnvirki milli landa, sæstreng, ekki gjöld af neinu öðru, ekki af neinu flutningsneti innan hvers lands, bara á milli landa.

Valdastofnanirnar um álit og tilmæli eða ákvarðanir snúast eingöngu um þessi grunnvirki. Í álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más er fjallað um valdframsal til ESA og þá ACER hvað varðar Evrópuríkin í þessari grein og spurt hvort valdframsalið til ESA sé vel afmarkað og skilgreint. Hér er farið í þýðingu á orðunum „shall include“ og sagt að þau útiloki ekki fleiri atriði; valdframsalið sé því ekki vel afmarkað og skilgreint þar sem hægt sé að bæta við fleiri atriðum á listann um skilmála og skilyrði. Þegar það á við í ensku væri hins vegar sagt, með leyfi forseta: „Shall include but not limited to“ — eða á íslensku: Skuli taka til en ekki takmarkast af.

Ef við skoðum aðrar þýðingar, t.d. danska þýðingu, þar er notað orðið „omfatte“. Og í tenglum á listanum er notað orðið „og“, alveg eins og í íslenskunni og öllum öðrum málum. Sama er á sænsku. Þar er „inbegripa“ og líka notað orðið „og“. Á þessum tungumálum þýðir þetta: Tæmandi listi. Það gerir það líka á íslensku og gerir það líka á ensku.

Þetta er lykilatriðið í allri þessari gagnrýni, að þessi listi sé ekki tæmandi. En hann er tæmandi á öllum þeim tungumálum sem þessi reglugerð er þýdd á. Þannig að þær forsendur sem segja að valdframsalið sé ekki vel afmarkað og skilgreint bara passa ekki miðað við tungumálaþýðinguna og venjur í því að skrifa hvernig listi sé takmarkaður eða ekki takmarkaður. Í þessari þýðingu er hann augljóslega tæmandi og ekki möguleiki á því að bæta við fleiri atriðum.

Þetta er valdframsal, já, það er alveg rétt, en þetta er valdframsal um að það eigi að vera til verklagsreglur um úthlutun, að það eigi að vera skýrt hver tímamörk aðgengis séu, að það sé skýrt hvernig tekjur skiptast ef það verður kerfisöng og hvernig álagning gjalda af notendum grunnvirkis yfir landamæri virki. Við setjum þessar reglur. Þær þurfa bara að standast þær gæðakröfur sem eru settar fram í þessum reglugerðum og tilskipunum.

Þá spyr ég: Hversu mikið valdframsal er það í raun og veru þegar það hafa engin áhrif á nein innanlandsdreifivirki eða orkuframleiðslu, ekki nein, bara á sæstrenginn og þær reglur sem varða hann? Bara á þær. Það er mjög eðlilegt að hugsa sem svo: Er það valdframsal að gefa frá sér þennan úrskurðarrétt? Það er í rauninni ekki bara ákvörðunarréttur, það er úrskurðarréttur þegar allt kemur til alls, því að landstofnanir hver í sínu landinu fá tækifæri til að komast að samkomulagi til að byrja með.

Þegar um er að ræða eitthvert fyrirbæri eins og sæstreng, sem er ekki eingöngu innan íslenskrar lögsögu heldur tengist við annað land, hefur hitt landið að sjálfsögðu eitthvað um það mál að segja. Þetta er venjulega gert í samningum. Þarna er verið að leggja grunninn að þeim samningum með því að setja sameiginlegar reglur.

Það er mjög eðlilegt að skilja það á evrópska vísu þar sem landamæri eru miklu fleiri og miklu auðveldara að koma tengingum yfir lönd og þau geta miklu auðveldlegar tengst fleiri löndum að það þurfi að vera sameiginlegar reglur. Annars þarf að fara í samninga við hvert og eitt einasta ríki um það hvernig þetta eigi að virka og þegar á að flytja orku frá einum stað yfir á annan þarf að huga að svo og svo mörgum samningum eftir því hversu langt á að koma orkunni. Þess vegna er Evrópusambandið alltaf að setja sameiginlegar reglur, setja grunnreglur sem takmarka ekki ákvörðunarvald hvers lands fyrir sig, ekki varðandi eignir eða yfirráð yfir auðlindum, heldur setur þeim ákveðinn ramma sem það getur unnið innan.

Það sem reglurnar snúa að er að hafa ekki óeðlilegar hindranir, vera ekki með einokunartilburði. Það er það sem þetta er þegar allt kemur til alls. Þetta er ákveðin and-einokunarreglugerð, sem var einmitt vandamálið eftir fyrsta og annan orkupakkann þegar var gerð greining á þeim. Það var það sem tókst ekki í fyrsta og öðrum orkupakkanum. Þess vegna þurfti að ganga aðeins lengra í að útrýma einokun sem var í gangi. Það var vandamálið.

Við eigum við það vandamál að stríða líka á Íslandi. 80% af allri orku sem við framleiðum fer til álfyrirtækjanna. Garðyrkjubændur t.d. sem vilja vera með ylrækt, eða eitthvað því um líkt, hafa lent í þvílíkum vandræðum við að reyna að fá kannski svipað verð og álfyrirtækin. Það myndi upplýsast betur með þessum orkupakka þar sem þá þarf að sýna verðið. Þegar við sjáum verðið koma svipaðir aðilar og segja: Heyriði, fyrirgefiði, af hverju fær hann þetta á miklu lægra verði en ég? Það eru stóru fyrirtækin sem lenda í vandræðum með þessum orkupakka, miklu frekar en íslenskir neytendur, miklu frekar.

Í 9. gr. er fjallað um önnur verkefni, að stofnunin geti samþykkt undanþágur þegar lagðir eru nýir samtenglar, undanþágur frá þessum reglum sem eru settar um samtenglana. Þær geta verið tímabundnar, til að hvetja til nýsköpunar í orkuframleiðslu o.s.frv. Þannig að það er í rauninni ekki valdframsal því þá er verið að aflétta þeim skilyrðum sem stofnunin mundi annars setja. Valdframsal á svo sem á ekkert sérstaklega við í þessum skilningi.

Í þessari reglugerð eru síðan fleiri greinar um samráð og gagnsæi, vöktun og skýrslugjöf, skipulag stjórna, verkefnisstjórna, stjórn eftirlitsaðila, verkefnisstjórn eftirlitsaðila, framkvæmdastjóra, verkefni framkvæmdastjóra, fullt af mjög eðlilegum útlistunum á því hver sinni hvaða verkefni. Það er fjallað um kærunefnd, hvernig kærur virki, hvernig málshöfðun og fjárhagsákvæði virki. Ég mæli með að fólk lesi í gegnum þetta. Þetta er ekki það langt. Það er ekkert mál að lesa þennan texta. Maður þarf aðeins að ná smá samhengi, vissulega, því að það er oft vísað í „sbr.“ þessa grein í hinni reglugerðinni o.s.frv., þannig að maður þarf aðeins að spóla fram og til baka.

En þegar allt kemur til alls kemst maður ekki að annarri niðurstöðu en að þessi reglugerð og það valdframsal sem hún vissulega innifelur sé í alvörunni smámunir af því hún varðar atriði sem eru á milli landa. Að sjálfsögðu er það ekki bara okkar ákvörðun að ráða öllu um þá tengingu. Ef við mundum segja: Ókei, við ætlum að leggja sæstreng og leggjum hann til Bretlands. Bretar mundu segja: Ú, hvað eruð þið að gera? Alveg eins og ef Bretar ætluðu að leggja sæstreng hingað, þá mundum við segja: Bíðið aðeins, við þurfum að semja um þetta. Að sjálfsögðu. Þess vegna leggjum við grunninn að þessum sameiginlegu reglum. Og þess vegna, þegar verður ágreiningur um þær, höfum við möguleika á að fara til eftirlitsaðila eða samvinnustofnunar til að skera úr þar um.

Ef það er ágreiningur fer það bara dómstólaleiðina eftir það. Þannig að það eru alls konar varnaglar á því, fram og til baka.

Þetta tók aðeins lengri tíma heldur en ég bjóst við, þannig að ég ætla aðeins að sleppa yfirferð um skilyrði að aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri. En markmið þeirrar greinar er að setja sanngjarnar reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri og auka þannig samkeppni á innri markaði með raforku að teknu tilliti til séreinkenna landsbundinna markaða og svæðismarka. Það felur í sér að komið verði á fyrirkomulagi vegna jöfnunargreiðslu fyrir raforkuflæði yfir landamæri og settar á samræmdar meginreglur um gjöld vegna flutnings yfir landamæri, úthlutunar flutningsgetu samtengilínanna. Þessu öllu hefur stofnunin síðan eftirlit með. Þetta á allt að auðvelda tilkomu vel starfshæfs og gagnsæs heildsölumarkaður með miklu afhendingaröryggi og kveður á um fyrirkomulag um að samræma reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri, til þess einmitt að losna við hindranirnar sem hafa kynt undir þá einokun sem hefur verið í kerfinu, til að losna við einokunina. Aftur er bara verið að setja reglurnar.

Í 7. gr. er síðan sérstaklega tekið fram, sem mjög mikilvægt, að, með leyfi forseta:

„Kerfisreglurnar skuli þróaðar vegna málefna sem varða net og ná yfir landamæri og markaðssamþættingu og skulu ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkjanna til að koma á landsbundum kerfisreglum sem hafa ekki áhrif á viðskipti yfir landamæri.“

Lykilatriðið, takk fyrir, fyrir alla þá sem ætla að segja að það sé einhver íhlutun erlendra aðila eða eitthvað svoleiðis. Þessi grein segir nákvæmlega að það sé ekki rétt. Það er ekki rétt.

Reglugerðin um afhendingu og birtingu gagna á raforkumörkuðum? Ég hef bara ekkert nema gott um þá reglugerð segja og ég mana hvern sem er að segja annað. Þar eiga t.d. að koma fram upplýsingar um álag, spá um álag, framleiðslu, ótiltækileika, vikmörk, grunnvirki, flutningsgetu, ráðstafanir vegna kerfisangar, jöfnun, verð og ýmislegt fleira. Fullt af svona áætlunum sem leggja grunninn undir þær landsáætlanir og svæðisáætlanir sem hver aðili fyrir sig þarf að gera.

Svo að lokum er það tilskipun um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir raforku. Þessi tilskipunin inniheldur margt mjög gott, t.d. fyrir Íslendinga. Þar er talað um orkuöryggi og alþjónustu líka; fyrir svæði sem eru í orkuþörf þarf að setja upp áætlun til að mæta þeirri orkuþörf. Þetta á t.d. við um Eyjafjarðarsvæðið. Þetta á við um Vestfirði. Þetta er eitthvað sem þau landsvæði mundu tvímælalaust vilja fá skýrt í landsáætlun um það hvernig orkuþróun til þeirra landsvæða verði í framtíðinni. Það er algjörlega nauðsynlegt að fá loksins eitthvað svoleiðis sem þau hafa verið að kalla eftir í langan tíma. Þetta varðar orkuöryggi innan hvers svæðis sem hefur átt í vandamálunum að undanförnu.

Látum þetta duga í bili.