149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef til ráðstöfunar ætla ég að víkja að nokkrum afmörkuðum atriðum og byrja á lagalega fyrirvaranum sem gufaði óvænt upp í dag, þrátt fyrir að hafa verið kynntur af hálfu talsmanna þessa máls sem úrslitaatriði í málinu. Það fór nú nokkuð misjöfnum sögum í umræðum dagsins af því hvar hans væri helst að leita. Það hefur m.a. verið bent á texta úr greinargerð þingsályktunartillögunnar sem hér er til umræðu. Það hefur verið bent á sameiginlega yfirlýsingu EFTA-ríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtensteins, sem lögð var fram á fundi sameiginlegu EES-nefndinni 8. maí, og svo er það sem kallað hefur verið „fyrirvarinn frá Miguel“. Það er sem sagt skjal sem er búið að vera hér lengi, sameiginleg yfirlýsing hæstv. utanríkisráðherra og Miguel Arias Cañete, sem er kynntur til sögunnar sem framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þeir ræddu 20. mars 2019 þriðja orkupakka ESB. Og hér er frásögn af því.

Síðan er ein útgáfa í viðbót, herra forseti, sem mun vera einhvers konar reglugerð. Þar eiga að koma fram einhver áform um að gefin verði út reglugerð og þar eigi þennan fyrirvara að vera að finna. Það er þá of snemmt að svo komnu máli að leita þessa fyrirvara því að miðað við þær frásagnir er hann í reglugerð sem ekki hefur verið gefin út og ekki hefur verið sýnd og ekki hefur verið kynnt.

Herra forseti. Ég leyfi mér að vona að sem flestir þingmenn átti sig á því, og litið sé á það sem algerlega áreitnislaust í garð nokkurs manns þó að sagt sé, að hér þarf að leita ráða og álits lögfróðra sérfræðinga, sérfræðinga í Evrópurétti, í stjórnskipunarrétti, e.t.v. raforkurétti o.s.frv. Menn mega ekki misvirða það, þó að mjög fróðir og ágætir þingmenn miðli af reynslu sinni og þekkingu, að hér er sóst eftir áliti og upplýsingum frá sérfræðingum úr hinni akademísku veröld, ef ég má orða það svo.

Ég vil af þessum ástæðum fagna ákvörðun 1. varaforseta, hv. þm. Guðjóns Brjánssonar, um að draga þessa umræðu ekki allt of lengi. Ég leyfi mér að vona að hægt verði að nota þann tíma sem gefst þangað til þessari umræðu verður fram haldið til þess að eiga viðræður við aðila af því tagi sem ég gat um.

Reyndar var það svo um þennan lagalega fyrirvara að mér gafst tækifæri til að sitja örfáa fundi í utanríkismálanefnd og á einn þessara funda mætti prófessor Davíð Þór Björgvinsson. Þetta var opinn fundur. Reyndar voru blaðamenn ekki viðstaddir. Ég hafði tækifæri til að spyrja prófessor Davíð Þór um þjóðréttarlegt gildi fyrirvarans og hafði ekki hugsað mér að hafa það eftir honum, því að það voru engir blaðamenn á staðnum, en aðrir hafa gert það, aðrir sem voru þátttakendur á þessum fundi, þannig að ég leyfi mér að að greina frá því, eins og áður hefur komið fram reyndar, að svar hans var að í þessum fyrirvara væri ekkert hald. Í framhaldinu féllu orð að því að hann væri greinilega ætlaður til heimabrúks, eins og það var orðað. Ég tel hugsanlegt að fleiri lögspekingar myndu geta svarað með svipuðum hætti en auðvitað verður tíminn að leiða það í ljós og ég vænti góðs af samtölum við slíka aðila á komandi dögum.

Það er eitt atriði sem mig langaði að nefna í viðbót. Það er orð í áliti meiri hlutans sem ég rak mig á og varð svolítið undrandi á. Það er orðið „neyðarráðstöfun“. Það er haft um það ef farið yrði að þeirri tillögu, sem ég álít vera megintillögu í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, sem oft eru nefndir, að málið verði tekið upp í sameiginlegu EES-nefndinni og leitað eftir sáttameðferð á grundvelli 102. gr. sáttmálans um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég hef líka haft tækifæri til að kynna mér greinargerðina með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 2/1993. Þar er þessi 102. gr. ekki á nokkurn hátt kynnt sem neins konar neyðarráðstöfun. Þeir sem hafa haldið slíku fram, eins og til að mynda í þessu meirihlutaáliti, verða að skýra það við hvaða lagatúlkun eða á hvaða heimildum þeir reisa það að tala um 102. gr. sem neyðarráðstöfun.

Herra forseti. Það gengur hratt á tímann. Ég vil í þessu samhengi leyfa mér að vitna í Morgunblaðið frá 11. maí sl. Þar er ritstjórnarefni sem ber heitið Reykjavíkurbréf og lesendur Morgunblaðsins þekkja til margra áratuga. Margir myndu telja sig þekkja höfundarmark á þessari grein í Morgunblaðinu, að þar muni vera ritstjóri blaðsins, annar tveggja, en í þessu tilfelli fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra um 13 ára skeið, Davíð Oddsson. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa örstutt upp úr umræddri grein þar sem segir:

„Nauðsynlegt er að fara rækilega yfir það hvort nokkur maður hafi sagt við umræður um EES-samninginn að vildu Íslendingar einhverju sinni nota rétt sinn til að hafna innleiðingu tilskipana sem þeim hentaði ekki myndi sá samningur riða til falls. Hér skal fullyrt að þessar hótanir og hræðsluáróður eru ósannindi. Og þó er þessi hótun eina afsökun ríkisstjórnarinnar fyrir því að keyra þetta varasama mál í gegn. Undirbúningur þess er í skötulíki og engum til sóma sem að því kom.“

Svo mörg voru þau orð.

Ég verð að viðurkenna að ég furða mig á því að þeir sem hafa hreyft því í þessum umræðum að með því að fara þá leið, sem er aðaltillaga í fyrrgreindri álitsgerð tvímenninganna, væri verið að stofna þátttöku okkar í EES-samstarfinu í einhverja sérstaka hættu. Þessi fullyrðing eða þessar getgátur hafa hvergi verið rökstuddar og erfitt að sjá við hvaða heimildir eða upplýsingar þetta styðst. Það væri ágætt ef menn upplýstu um þetta atriði.

Tíminn er algerlega á þrotum. Að síðustu vil ég segja þetta: Í ljósi þess mikla skilnings sem virðist ríkja af hálfu framkvæmdastjóra orkumála og eins þess sem kom fram á fundi sameiginlegu nefndarinnar spyr ég: Hvað er í veginum fyrir því að fara ósköp einfaldlega þá leið sem tvímenningarnir leggja til og taka málið upp þar með farsæla niðurstöðu og lausn fyrir höndum í friðsamlegu og góðu samstarfi sem EES-samstarfið er?