149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:26]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, svokallaður þriðji orkupakki. Umræðan um þriðja orkupakkann hefur hjá ýmsum beinst að áhyggjum þeirra af einkum tvennu, annars vegar að tiltekin ákvæði hans feli í sér brot á stjórnarskrá með of miklu framsali valds og hins vegar að hann feli í sér skyldu til að leggja raforkusæstreng milli Íslands og innri markaðar Evrópusambandsins, ESB.

Fræðimenn eru sammála um að innleiðing þessara reglna, á þeim forsendum sem hún fer fram í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, stangist ekki á við stjórnarskrá og sleginn er sá varnagli í frumvarpi iðnaðarráðherra að raforkusæstrengur verði ekki lagður nema með samþykki Alþingis finni menn nýjan flöt á málinu. Nú er því haldið fram að við getum ekki byggt undanþágur frá því að innleiða ákvæði þriðja orkupakkans á einhliða fyrirvörum eða forsendum. Við þurfum að semja um slíkar undanþágur og fá samþykki í sameiginlegu EES-nefndinni. Annars gæti ESA höfðað samningsbrotamál á hendur okkur og hugsanlega gæti Ísland tapað slíku máli.

Það er rétt staðhæfing en hún hefur einn verulegan galla. Gallinn við þessa staðhæfingu er sá að hún hefur ekkert að gera með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra. Í tillögunni felst ekki undanþága frá reglunum, þvert á móti, reglurnar eru innleiddar. Innleiðing reglnanna er aftur á móti grundvölluð á þeirri forsendu að Ísland er ekki tengt innri raforkumarkaði ESB með raforkusæstreng. Við innleiðinguna er gerður sá lagalegi fyrirvari að Ísland muni ekki tengjast innri raforkumarkaði ESB nema með samþykki Alþingis og að undangenginni sérstakri skoðun á því hvort reglurnar standist ákvæði stjórnarskrár.

Þangað til það gerist, ef það nokkurn tímann gerist, þá hafa reglurnar ekkert raunhæft gildi og enga þýðingu hér á landi. Innleiðingin felur það hins vegar í sér að ef Alþingi ákveður með þeim hætti sem að ofan greinir að tengja Ísland við innri raforkumarkað ESB þá munu þessar reglur koma til framkvæmda og eiga við um flutning rafmagns til og frá Íslandi um raforkusæstreng.

Við getum ekki tekið þátt í fótboltaleik og verið undanþegin reglum um rangstöðu og innáskiptingar. Við getum hins vegar ákveðið að taka ekki þátt í leiknum. Við getum lýst því yfir að reglur um rangstöðu og innáskiptingar eigi ekki við um okkur á meðan við erum ekki þátttakendur í leiknum. Þótt dómarafélagið gæti áréttað gildi reglna um rangstöðu og innáskiptingar almennt séð gæti það hvorki veifað á okkur gulu né rauðu spjaldi þar sem við erum heima í stofu að horfa á leikinn. Reglugerðin er innleidd með lagalegum fyrirvara um að Alþingi þurfi að samþykkja slíka tengingu og þangað til það gerist hafa þessi ákvæði enga þýðingu og koma ekki til framkvæmda. Í þessu felst þannig ekkert samningsbrot. Við innleiðum reglurnar. Þær liggja í dvala sem óvirkur lagabókstafur þar til og ef við ákveðum að tengjast, við sjálf, með sérstakri ákvörðun Alþingis.

Við erum þannig ekki að lýsa því einhliða yfir með fyrirvara að við séum undanþegin reglunum. Við lýsum því yfir að þær muni ekki koma til framkvæmda fyrr en við tengjum okkur, ef það mun nokkurn tímann gerast. Ég ítreka hér að sú ákvörðun er algerlega á valdi okkar Íslendinga. Með innleiðingu reglnanna erum við að segja að þetta séu þær reglur sem við munum fara eftir ef og þegar við ákveðum að taka þátt í leiknum.

Sá sem hér stendur er einn þeirra svokölluðu efasemdarmanna, þeirra sem lýstu ákveðnum efasemdum fyrir rúmu ári um innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi. Í mínum huga var umdeildasti þáttur þessa máls, og gerði að verkum að mér fannst nauðsynlegt að fá frekari skýringar á varðandi innleiðingu þriðju orkutilskipunarinnar hér á landi á þeim tímapunkti, aðkoma Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER. Umræðan snerist um það hvort um yfirþjóðlega stofnun væri að ræða. Það væri mikilvægt að draga það fram að Íslendingar héldu fullu forræði yfir orkuauðlindum þjóðarinnar og ef til þess kæmi að sæstrengur yrði lagður til Evrópu þá yrði hann lagður á forsendum okkar Íslendinga og hagsmunir íslenskrar þjóðar yrðu hafðir að leiðarljósi.

Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa íslensk stjórnvöld, og þá sérstaklega utanríkisráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið og ráðherrar þeirra ráðuneyta, unnið mikið starf í því að tryggja og skýra hagsmuni Íslendinga.

Nú hafa þessi mál skýrst að því er varðar eftirlitsyfirvöld í EFTA-ríkjunum innan EES, Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Samningsaðilar þessa landa ákváðu, í samræmi við tveggja stoða kerfið, að fela þær valdheimildir til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í stað ACER. Þetta hefur skýrst mikið í mínum huga. Ég var ekki nógu vel að mér í þessum þáttum á sínum tíma. Þetta hefur mikið verið rætt hér í störfum þingsins og nefndum þingsins á undanförnum árum, enda hefur komið fram í þessari umræðu að þetta mál er búið að vera í þinginu í um níu ár. Þetta er orðið kristaltært með öllum þeim lögfræðiálitum sem hafa komið fram og þegar maður hefur spurt marga af þeim lögspekingum, sem hafa komið með sín lögfræðiálit og kynnt þau í nefndum þingsins, hafa sumir svarað því einmitt að þetta væri kristaltært varðandi þá þætti sem ég hef rætt um hér á undan og kom inn á. Heimildir ACER gilda bara um mál sem snúast um flutning á raforku yfir landamæri, til að skera úr um deilumál milli landsbundinna eftirlitsaðila er varða grunnvirki sem ná yfir landamæri.

Ég ítreka það að valdheimildir ACER og ESA samkvæmt ákvæðum þriðja orkupakkans um tengingar yfir landamæri munu ekki koma til framkvæmda gagnvart Íslandi vegna lagalegs fyrirvara í þingsályktunartillögunni. Fyrirvarinn er sá að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar. Koma ákvæði hennar sem varðar tengingar við landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.

Þetta er lykilatriði í allri umræðu. Umræðan í þinginu og víðar í samfélaginu hefur ekki verið sérlega ígrunduð og byggt á miklum misskilningi sem snýr að þessu. Menn snúa mikið út úr og ræða raunar um allt annað en það sem þriðji orkupakkinn snýst um.

Svo því sé algjörlega haldið til haga er sá sem hér talar ekki og hefur aldrei verið neinn sérstakur Evrópusinni. Þeir sem þekkja til hans geta staðfest það. Þess vegna kom ég fram með mínar efasemdir fyrir um 15 mánuðum síðan til að fá þessi grundvallaratriði á hreint. Þau mál hafa verið skýrð mjög svo á undanförnum mánuðum.

Það sem er kannski það jákvæðasta við þá umræðu sem hefur farið fram um þriðja orkupakkann er umræðan um orkumál í hinni víðustu mynd vegna þess að menn hafa komið mjög víða við í henni. Mjög stór hluti af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram á raunverulega við um þá vinnu sem fer fram í orkustefnunefndinni um langtímaorkustefnu fyrir landið. Nefndin hefur verið við störf í heilt ár og er reiknað með að sú orkustefna komi að ári. Mjög stór hluti af þessari umræðu á heima þar.

Málefnin sem snúa að þriðja orkupakkanum eru tiltölulega einföld í þessari stóru mynd sem við ræðum. Ef menn kynna sér hvað þessir pakkar hjá Evrópusambandinu snúast raunverulega um, sem við höfum kynnt okkur býsna vel í 15 mánuði, þá snúast þeir um orkunýtni fyrst og fremst. Þetta er loftslagsmál, snýst um að nýta orkuna betur. Það má jafnvel fara út í það að þetta snúist að einhverju leyti um öryggismál í Evrópu. Nýta endurnýjanlega orku betur, vindorku, sólarpanela og slíka hluti sem þurfa meira á að halda góðu flutningskerfi raforku. Það má raunverulega yfirfæra það sem Evrópusambandið er að gera, þegar litið er á stóru myndinni, á það þegar við á Íslandi tölum um að styrkja byggðalínuna á Íslandi og nýta raforku á Íslandi betur. Það er það sem verið að gera með styrkingu byggðalínunnar. Í staðinn fyrir að við getum flutt um 3–4% af framleiddu rafmagni eða uppsettu afli virkjana á Íslandi eins og er í dag þá viljum við færa það upp í 15–20%, að við getum flutt um 15–20% af framleiddri orku með svipuðum hætti og þegar byggðalínan var lögð fyrir 40 árum síðan, koma því í sama horf. Það er sama hugmyndafræði sem er verið að virkja í Evrópu m.a. með þessum pökkum, að styrkja þetta.

Í þessari umræðu hefur mér sárnað, ég verð að viðurkenna það, mér sárnaði það töluvert í apríl þegar við ræddum málefni tengd þriðja orkupakkanum, sá málflutningur sem hér kom fram um að það væri ástæðulaust að styrkja byggðalínukerfið á Norðurlandi, Norðausturlandi, norðausturlínuna eins og það var sett fram í þeirri umræðu, vegna þess að það væri fyrst og fremst hugsað til að setja orkuna inn á sæstreng. Á sama tíma hefur samfélagið þar síðustu 10–15 ár búið við orkuskort. Afhendingaröryggi hefur ekki verið til staðar. Það er einmitt einn af punktunum í þriðja orkupakkanum, afhendingaröryggi, m.a. til almennings. Það er ekkert í lögum á Íslandi sem snýr að því. Þetta er hluti af þeirri samkeppnisvernd. Það hefur varla verið minnst á afhendingaröryggi í þessari umræðu. (Gripið fram í: Ég. ) Gott, hv. þingmaður.

Hér í umræðunni hefur oft og tíðum verið rætt um reglugerð nr. 713/2009. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, upp úr álitsgerð Skúla Magnússonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, um stjórnskipuleg álitamál vegna innleiðingar 7., 8. og 9. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER). Ég vitna hér í bls. 39 í 11. kafla, niðurstöðukaflanum, þar sem segir:

„Vakin er athygli á því að umræddar gerðir þriðja orkupakkans, og heimildir 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009, taka með engum hætti til ákvarðana um tengingu fyrir flutning raforku til annarra ríkja, svo sem með lagningu sæstrengs. Því síður taka heimildirnar til ákvarðana um eiginlega nýtingu auðlinda, t.d. virkjana. Það er því niðurstaða mín að umfjöllun um þessi efni, sem lúta að afstöðu almennra reglna EES-samningsins til auðlindastjórnar, falli utan þeirra álitamála sem mér hefur verið falið að fjalla um og hafi þar af leiðandi ekki þýðingu um stjórnskipulega heimild til innleiðingar gerða svonefnds þriðja orkupakka.“

Þetta er nokkuð skýrt. Við þurfum þegar við ræðum um þriðja orkupakkann að halda okkur við meginefni þess máls. Það er flutningur raforku um grunnvirki yfir landamæri. Þessi umræða hefur farið mjög víða. Það hefur verið gríðarlega mikið af rangfærslum almennt í umræðunni, hvort sem er hér á þinginu eða úti í samfélaginu um þessi mál. Í samtölum við t.d. forsvarsmenn Orkunnar okkar hafa þeir staðfest það við mig, þeir eru sammála mér í því.

Að lokum vil ég segja þetta: Lagning sæstrengs er ávallt á forræði Íslendinga. Umræðan um þriðja orkupakkann hefur tekið á sig ýmsar myndir. Sem dæmi hafa ýmsir í þessum þingsal dregið upp þá mynd að innleiðing pakkans hafi það í för með sér að ákvörðun um lagningu sæstrengs verði ekki lengur á forræði Íslands. Staðhæfingar í þessa veru eru einfaldlega rangar og gefa því tilnefni til leiðréttingar.

Í fyrsta lagi ber að nefna að ekkert í þriðja orkupakkanum skuldbindur Ísland til að leggja sæstreng til meginlands Evrópu en slík ákvörðun verður á forræði Íslands.

Í annan stað hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga vegna þriðja orkupakkans en hún tekur af öll tvímæli um að lagning sæstrengs verður ávallt háð samþykki Alþingis. Þá er rétt að geta þess að áður en til samþykkis kæmi þyrfti Alþingi jafnframt að endurskoða lagagrundvöll þriðja orkupakkans. Þannig er búið um hnútana að ákvæði þriðja orkupakkans varðandi tengingu yfir landamæri, svo sem með sæstreng, koma ekki til framkvæmda fyrr en að slíkri endurskoðun lokinni.

Í þriðja lagi hefur ráðherra ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunar lagt fram frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum annars vegar og þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku hins vegar. Í breyttri þingsályktunartillögu er sérstaklega kveðið á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Þess utan er þess sérstaklega getið að samþykki verði að liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða sæstreng geti farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.

Þessum aðgerðum er þannig ætlað að draga ramma í kringum flutning á raforku frá Íslandi til meginlands Evrópu og tryggja að undir engum kringumstæðum verði lagður hingað sæstrengur án aðkomu íslenskra stjórnvalda. Það er engum vafa undirorpið að lagning sæstrengs verður ávallt á forræði íslenskra stjórnvalda og þannig þjóðarinnar. Allt annað er staðleysa. Mikilvægt er — og þetta er grundvallaratriði — að umræða um þriðja orkupakkann eins og öll umræða almennt sé byggð á staðreyndum. Það á bæði við um í vinnu þingsins og samfélaginu öllu.