149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og hlakka til að hlusta á það sem eftir er af henni. Mig langaði aðeins að ræða við hann um það sem hann kom inn á í sinni ræðu, þessa tilskipun. Í 36. gr. tilskipunarinnar stendur að eftirlitsvald skuli gera, með leyfi forseta: „allar viðeigandi ráðstafanir til að ná eftirfarandi markmiðum innan ramma skyldna þeirra og valdsviðs … að afnema takmarkanir í viðskiptum með rafmagn milli aðildarríkjanna, þ.m.t. að þróa viðeigandi flutningsgetu yfir landamæri til að anna eftirspurn og auka samþættingu landsmarkaða sem getur auðveldað raforkuflæði innan Bandalagsins.“

Þetta er eitt af því sem hefur verið velt upp hér í þessum orkupakka sem vekur mann kannski til umhugsunar um það að markmið Evrópusambandsins sé að tengja saman lönd — skil ég þetta rétt? — og auka líkurnar á því að flytja raforku frá einu landi yfir til annars, þar sem gnótt er af raforku yfir á svæði þar sem minna er af henni. Kannski ekki síst að flytja hreina orku yfir á svæði þar sem óhrein orka er kannski í meira mæli, þ.e. orka sem er framleidd er með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku. Ég kem kannski inn á það í seinna andsvari.